Viðskipti innlent

Besti ársfjórðungur sögunnar hjá Vodafone

Sæunn Gísladóttir skrifar
Stefán Sigurðsson er forstjóri Vodafone.
Stefán Sigurðsson er forstjóri Vodafone. vísir/gva
Þriðji ársfjórðungur Fjarskipta hf, móðurfélags Vodafone á Íslandi, var besti ársfjórðungur í sögu félagsins hvort sem litið er til tekna eða hagnaðar. Þetta kemur fram í tilkynningu í Keldunni.

Hagnaður á ársfjórðungnum nam 502 milljónum króna og jókst um 5 prósent milli ára. Hagnaður á fyrstu níu mánuðum ársins nam 1.038 milljónum króna og jókst um 26 prósent milli ára. EBITDA hagnaður nam rúmum milljarði á ársfjórðungnum og jókst um 3 milljónir milli ára. EBITDA á fyrstu níu mánuðum ársins nam 2,5 milljörðum króna sem er hækkun um 8 prósent.

Á ársfjórðungnum var tekjuaukning um 2 prósent og 3 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins. Framlegð stendur í stað á ársfjórðungnum milli ára en hækkar um 3 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins. Rekstrarkostnaður lækkaði um 5 milljónir króna á fjórðungnum. Eiginfjárhlutfall var 57,9 prósent. Handbært fé frá rekstri var 16 prósent hærra en á sama tímabili 2014. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×