Körfubolti

Friðrik Ingi: Haukur stórkostlegur | Reiknar ekki með Bonneau

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Njarðvíkur.
Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Njarðvíkur. Vísir/Valli
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkur, var eðlilega kampakátur eftir að ganga frá samningi við Hauk Helga Pálsson, landsliðsmann í körfubolta í Ljónagryfjunni í dag.

Haukur Helgi er mættur heim eftir sex ár í háskólaboltanum í Bandaríkjunum og síðar í atvinnumennsku á Spáni, í Svíþjóð og nú síðast í Þýskalandi. „Þetta eru auðvitað stórkostlegar fréttir því Haukur Helgi er ekki bara frábær körfuboltamaður heldur líka frábær persónuleiki og karakter," sagði Friðrik Ingi við Vísi.

„Hann er þannig að hann gerir allt umhverfi sitt betra og það er ekkert síður frábært að fá stórkostlegan körfuboltamann sem hjálpar liðinu og leikmönnum þess sem er líka svona góður drengur."

Haukur Helgi Pálsson.Vísir
Skýr skilaboð frá Njarðvíkingum

Þessi félagaskipti eru skýr skilaboð frá Njarðvíkingum um að þeir ætla að berjast um titlana á tímabilinu. „Við vorum grátlega nálægt því í fyrra að slá út KR sem enginn átti von á. Auðvitað var ákveðinn meðbyr með okkur í kjölfarið á því. Ég hef aldrei á mínum langa ferli fengið eins mikla jákvæða umfjöllun eftir það því við heilluðum marga," sagði Friðrik Ingi.

„Við ætluðum okkur að byggja helst á sama liði og þess vegna sömdum við aftur við Bonneau. En svo meiðist hann rétt eftir að hann kemur til landsins sem var mikið áfall. Það stóð alltaf til að vera opnir fyrir öllu og styrkja hópinn ef eitthvað kæmi upp á. Með því að fá Hauk Helga höldum við okkar stefnu að vera í baráttunni um alla þá titla sem eru í boði," sagði Friðrik.

Bonneau í gifsi

Stefan Bonneau var í gifsi á blaðamannafundinum en hann sleit hásin rétt fyrir tímabilið. Er möguleiki að hann verði með á þessari leiktíð? „Ég get auðvitað bara talað fyrir mig en ég geri mér engar vonir um að hann verði með á þessu tímabilinu," sagði Friðrik Ingi sem finnst ekki slæmt að hafa hann í kringum liðið.

„Hann stuðar engan og hefur ekki slæm áhrif á einn né neinn. Hann er bara í endurhæfingu. Honum líður vel hér og vill vera hjá okkur á meðan hann fer í gegnum þessi fyrstu skref í endurhæfingunni," sagði Friðrik Ingi Rúnarsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×