Viðskipti innlent

Facebook eyðir „Others“ möppunni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þessi mappa kann að geyma fullt af merkilegum skilaboðum sem fáir berja nokkurn tímann augum.
Þessi mappa kann að geyma fullt af merkilegum skilaboðum sem fáir berja nokkurn tímann augum. Mynd/Business Insider
Yfirmaður spjallforritshluta Facebook, sem flestir þekkja undir nafninu Messenger, tilkynnti á Facebook-síðu sinni í gær að samskiptamiðillinn hygðist hætta að flokka skilaboð sem kæmu frá ókunnugum í sérstaka möppu.

Þau skilaboð hafa alla jafna farið í sérstaka möppu, sem ýmist heitir „Annað“ eða „Other,“ og hafa fjölmargir notendur Facebook kvartað yfir þessu fyrirkomulagi. Þeir hafa sagt að of lítið fari fyrir þessari möppu og maður reki því sjaldan augun í hana. Þá sést hún alls ekki í símum eða spjaldtölvum.

Það er sérstaklega bagalegt í ljósi þess að þar kunna að leynast fjölmörg mikilvæg skilaboð frá fólki sem er ekki endilega vinir þínir á Facebook. Blaðamaður Business Insider sagði til að mynda í þessu samhengi að hann hafi eitt sinn glatað veskinu sínu og miskunnsamur Samverji fundið það, sent honum skilaboð en hann hafi aldrei tekið eftir þeim.

Þær áhyggjur eru þó úr sögunni með hinum nýju „Skilaboðabeiðnum“ (e. Message Request) sem Facebook mun ýta úr vör á næstunni. Þessar beiðnir munu birtast í aðalhluta spjallforritsins sem notandinn getur svo ákveðið að samþykkja eða hunsa. Fyrirtækið segist þó ætla að halda áfram að taka hart á öllum ruslpósti og sjá til þess að notendur Facebook fái ekki beiðnir frá fólki sem það telur ekki vera til.

Svona mun nýja fyrirkomulagið koma til með að líta útMynd/facebook





Fleiri fréttir

Sjá meira


×