Viðskipti innlent

Hæsta gildi Væntingavísitölunnar í tæp 8 ár

Sæunn Gísladóttir skrifar
Einkaneysluvöxtur kemur væntanlega til með að verða talsvert hraðari á síðari helmingi þessa árs en á fyrri.
Einkaneysluvöxtur kemur væntanlega til með að verða talsvert hraðari á síðari helmingi þessa árs en á fyrri. Vísir/Vilhelm
Væntingavísitala Gallup (VVG) hækkaði um rúm 5 stig í október frá fyrri mánuði, og mælist þar með yfir 100 stigunum sem marka jafnvægi á milli bjart- og svartsýni þriðja mánuðinn í röð. Er gildi VVG 33 stigum hærra en það var á sama tíma í fyrra, og mælist nú 108,9 stig sem er hæsta gildi vísitölunnar frá janúar 2008. Þetta kemur fram í frétt á vef Íslandsbanka. Þess má geta VVG hefur langoftast lækkað í október, á síðastliðnum 5 árum hefur það verið undantekningalaust. 



Hraðari einkaneysluvöxtur framundan

Þróun VVG er í takti við þróun annarra hagstærða er gefa tóninn varðandi þróun einkaneyslunnar um þessar mundir, s.s. kortaveltu, nýskráningar fólksbifreiða og fjölda utanlandsferða. Gefa þær til kynna að einkaneysluvöxtur komi væntanlega til með að verða talsvert hraðari á síðari helmingi þessa árs en á þeim fyrri. Bráðabirgðatölur Hagstofunnar um þróun einkaneyslu á fyrri helmingi árs benda til þess að hún hafi vaxið um 4,4% að raungildi á milli ára, sem er mun meiri vöxtur en verið hefur undanfarin ár.

Íslandsbanki telur þó að sá vöxtur sé heldur hóflegri en komi til með að reynast á árinu í heild, en eins og sjá má í þjóðhagsspá bankans er spáð 4,8% einkaneysluvexti í ár. Skýring á þeirri þróun er m.a. sú að kjarasamningaviðræður og verkfallsaðgerðir, og óvissa þeim tengd, kunni að hafa aftrað nokkuð vexti í eftirspurn heimilanna á fyrri árshelmingi, en niðurstaða þeirra viðræðna gefi svo aftur á móti innspýtingu í eftirspurn á seinni árshelmingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×