Viðskipti innlent

Skýr og ákveðin tímamót

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku með nýju lógó.
Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku með nýju lógó. Vísir/Anton
Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, sem áður hét MP Straumur, segir samrunaferlið ekki að öllu leyti lokið, hins vegar séu skýr og ákveðin tímamót um þessar mundir með nýju nafni og útliti. „Samrunaferlið er mjög krefjandi umbreytingaverkefni og við gerum okkur grein fyrir því að því sé ekki að fullu leyti lokið,“ segir Sigurður Atli.

Um helgina voru 100 dagar frá því að samruni MP banka og Straumst hófst. Sigurður Atli segir í samtali við Vísi að eitt af fjölmörgum verkefnum í því ferli var að endurmarka ásýnd bankans og það hafi verið punkturinn yfir i-ið á þessum fyrstu 100 dögum að koma með nýtt nafn og útlit. „Sameiningin hefur falið í sér útfærslu á stefnumótun fyrir nýja fyrirtækið og það er búið að vera að vinna  að í rauninni endurmörkun bankans sem byggði á þeirri stefnumótun frá því síðasta sumar, þannig að nafnið og útlitið það endurspeglar á ýmsan hátt stefnu hins nýja banka,“ segir Sigurður Atli.

Næsta skref að skapa virði

Sigurður Atli segir að næsta skref bankans felist í því að skapa virði og vinna út frá stefnu bankans með markvissum hætti. „Í því sem búið er hefur áhersla verið lögð á fólkið og hraðar og markvissar aðgerðir og upplýsingamiðlun. Nú hefur stefna verið mótuð og nýtt nafn tekið upp þannig að næstu skrefin felast í því að skapa virði og vinna út frá stefnu okkar með markvissum hætti. Það er næsta skrefið,“ segir Sigurður Atli.

30% færri starfsmenn

Aðspurður segir Sigurður Atli að breytingar á starfsmannafjölda sem tengjast sameiningunni sem slíkri sé lokið. „Við erum 80 mann um þessar mundir en starfsmannafjöldinn hefur lækkað um 30% frá síðustu áramótum,“ segir Sigurður Atli.

Sigurður Atli lítur björtum augum til framtíðar. „Þær vísbendingar sem við höfum úr rekstrinum eftir sameiningu gefa til kynna að rekstrarleg markmið samrunnans séu samkvæmt áætlun og ríflega það," segir Sigurður Atli. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×