Viðskipti innlent

Millilandaflug ekki bæði í Keflavík og Hvassahrauni

Ingvar Haraldsson skrifar
Björn Óli Hauksson er forstjóri Isavia.
Björn Óli Hauksson er forstjóri Isavia.
„Eins og staðan er núna er ég mjög efins um að það sé raunhæfur möguleiki,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, um áform um að byggja nýjan alþjóðaflugvöll við Hvassahraun.

Niðurstaða skýrslu Rögnunefndarinnar sem birtist í sumar var að hagkvæmast væri að byggja flugvöll fyrir innanlandsflug í Hvassahrauni af þeim kostum sem komu til skoðunar. Ein helsta forsendan fyrir því væri að flugvöllurinn gæti orðið alþjóðaflugvöllur sem myndi taka við millilandaflugi af Keflavíkurflugvelli.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, sendi innanríkisráðuneytinu bréf í sumar þar sem óskað var eftir að hefja viðræður um stofnun undirbúningsfélags um flugvöll í Hvassahrauni. Því bréfi hefur enn ekki verið svarað.

Björn telur brýnt að hefja uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli sem fyrst því hann sé nú þegar sprunginn á háannatíma. Búist er við að umferð um flugvöllinn muni nær tvöfaldast fram til ársins 2020.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir að fyrsta áfanga við stækkun flugvallarins muni hefjast árið 2017 og kosti 70 til 90 milljarða króna. Eigi að færa millilandaflug í Hvassahraun tefjist það að Ísland geti tekið á móti auknum straumi ferðamanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×