Viðskipti innlent

Yfir 700 manns hafa áhuga á ljónum í veginum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka, verður fundarstjóri á morgun.
Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka, verður fundarstjóri á morgun. Vísir/GVA
Fundur Íslandsbanka með Ungum athafnakonum verður haldinn á morgun en yfir 700 manns hafa skráð sig á fundinn. Á fundinum verður fjallað um ljónin í veginum.

Ljónin verandi hindranir í vegi kvenna þegar þær stíga sín fyrstu skref í atvinnulífinu. Á fundinum munu reynsluboltar úr atvinnulífinu miðla reynslu til annarra og segja sínar sögu á skemmtilegan og einlægan hátt. Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka, mun fjalla um sínar hindranir og áskoranir. Í framhaldi verða umræður þar sem Birna Einardóttir, bankastjóri Íslandsbanka, Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Símanum, Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, og Hallbjörn Karlsson fjárfestir, taka þátt.

„Fundurinn er liður í fundarröð Íslandsbanka í tilefni af 100 ára kosningaafmæli kvenna. Mikil áhersla er lögð á jafnfrétti í Íslandsbanka og það er skemmtilegt að leiða þessa umræðu sem greinilega þörf er á miðað við áhugann. Við viljum gjarnan halda áfram með þessa umræðu með frekari fundum þar sem við heyrum ólík sjónarmið. Upphaflega átti þessi fundur að vera lítill og krúttlegur fundur á Kirkjusandi með svona 70 gestum. Fjöldinn margfaldaðist óvænt svo við ætlum að halda fundinn á Nordica. Fyrirlesararnir eiga það líka allir sameiginlegt að framsetning þeirra er lífleg svo þetta verður bæði áhugavert og skemmtilegt í senn,” segir Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×