Viðskipti innlent

Stýrir fjárhagssviði Seðlabankans

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Erla Guðmundsdóttir hefur gaman af hestamennsku og er búin að kaupa sér hesthús.
Erla Guðmundsdóttir hefur gaman af hestamennsku og er búin að kaupa sér hesthús. Fréttablaðið/GVA
Erla Guðmundsdóttir var á dögunum ráðin framkvæmdastjóri á fjárhagssviði Seðlabanka Íslands. Þar ber hún meðal annars ábyrgð á heildaruppgjöri bankans og er einnig með ábyrgð á öllum greiðslum bankans. Erla er viðskiptafræðingur og lauk cand. oceon.-prófi árið 2005.

„Sviðið skiptist í tvær einingar, bakvinnslu og reikningshald. Baksviðið sér um greiðslur bankans bæði innlendar og erlendar. Og einnig fyrir hönd ríkissjóðs og félög í eigu bankans,“ segir Erla. Reikningshald sér svo aftur um allar daglegar færslur og mánaðarleg uppgjör fyrir bankann og fyrir félög í eigu bankans, en það eru Eignasafn Seðlabanka Íslands og Greiðsluveitan. Starfsmenn sviðsins eru fimmtán.

Erla er ekki ókunnug fjárhagssviði bankans, en hún hefur starfað þar í fimm ár. „Ég tók við sem forstöðumaður reikningshalds og aðstoðarframkvæmdastjóri á sama ári og ég byrjaði. Og svo er ég nú bara yfir þessu öllu núna,“ segir Erla. Hún segir það hafa marga kosti að vinna hjá bankanum og vinnan þar sé mjög skemmtileg. „Maður hefur kynnst þessu samstæðuuppgjöri, einhverju sem maður bjóst ekki við þegar maður byrjaði hjá Seðlabankanum,“ segir Erla. Að auki sé mikil þekking í bankanum úr ýmsum áttum.

Áður starfaði Erla í MP-banka sem sérfræðingur í fjárhagsdeild og einnig hefur hún starfað í reikningshaldi og samstæðueiningu fjárhagsdeildar Íslandsbanka. Hún segir starfið hjá Íslandsbanka hafa verið töluvert frábrugðið þar sem Íslandsbanki sé mun stærri banki og starfið þar mun afmarkaðra. „En þegar ég færði mig yfir í MP þá var það mjög skemmtilegur tími. Þá var hann fjárfestingabanki þegar hann byrjaði en ég tók svo þátt í að gera hann að viðskiptabanka. Það er miklu minni eining en þar hafði maður heildaryfirsýnina sem nýttist mér vel þegar maður kom yfir til Seðlabankans.“

Mestum tíma utan vinnu ver Erla með fjölskyldunni. „Svo reynir maður að tvinna sín áhugamál inn. Áður en ég stofnaði fjölskyldu var ég mikið í hestamennsku. Það er draumur sem á að kveikja aftur,“ segir Erla. Hún á afa sem var bóndi og fékk að fara á hestbak hjá honum þegar hún var yngri.

„Ég er komin hálfa leið. Ég er búin að fjárfesta í hesthúsi. Þannig að ég er komin hálft skref í rétta átt,“ segir hún en viðurkennir að það sé mikil fjárfesting að eignast hesthús. „En eru ekki öll áhugamál dýr í dag?“ spyr hún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×