Viðskipti innlent

Lítil ávöxtun af útleigu húsnæðis

Samúel Karl Ólason skrifar
Hagfræðideildin nefnir einnig að mikil umræða hafi verið um hækkun húsaleigubóta og séu þær boðaðar í fjárlagafrumvarpinu.
Hagfræðideildin nefnir einnig að mikil umræða hafi verið um hækkun húsaleigubóta og séu þær boðaðar í fjárlagafrumvarpinu. Vísir/Andri
Að leigja íbúðarhúsnæði út virðist skila lítilli ávöxtun. Leiguverð hefur gefið eftir samanborið við kaupverð fjölbýlis, sem hefur hækkað um 1,8 prósent á þremur mánuðum og 8,4 prósent á ári. Leiguverð hefur lækkað um 2,3 prósent á þremur mánuðum, en hækkað um 3 prósent á ári.

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans.

Þar segir að ávöxtun á útleigu íbúðarhúsnæðis frá júlí 2014 til júlí 2015 hafi verið 8,3 prósent á öllu landinu, en 74 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Þá er ekki að sjá mikinn mun á ávöxtun einstaklinga sem leigja út íbúðarhúsnæði eða fyrirtækja.

Ávöxtunarkrafa á íslensk ríkisskuldabréf hefur verið í kringum sex prósent að undanförnu og er þar um að ræða tiltölulega áhættulitla fjárfestingu.

„Í samanburði við þá ávöxtun er varla hægt að segja að áhættuþóknunin fyrir að leigja út húsnæði í stað þess að fjárfesta í ríkisskuldabréfum sé há þegar tekið er tillit til þess að ávöxtun útleigunnar þarf einnig að standa straum af tilfallandi kostnaði við eign og viðhald húsnæðisins.“

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er stefnt að lækkun skattlagningu á húsaleigutekjur á næsta ári sem mun bæta ávöxtunina.

Hagfræðideildin nefnir einnig að mikil umræða hafi verið um hækkun húsaleigubóta og séu þær boðaðar í fjárlagafrumvarpinu. Slík hækkun sé hugsuð sem stuðningur við leigjendur, en töluverðar líkur séu alltaf á að þær stuðli að hækkun leiguverðs. Þannig myndi ávöxtun útleigu batna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×