Matur

Ómótstæðilegir amerískir réttir

Matur
Matur

Eva Laufey er mjög hrifin af amerískri matargerð og var sú matargerð innblástur í síðasta þætti af Matargleði Evu. Stökkir kjúklingabitar með kartöflubátum, hunangssósu og fersku grænmeti. Mac n Cheese í öllu sínu veldi og síðast en ekki síst ljúffengt pæ fyllt með þykkri karamellusósu, bönunum og rjóma.

Kjúklingabitar í kornflexmulningi með hunangssósu

Kartöflubátar

7–8 kartöflur, fremur stórar

1 rauðlaukur

4 hvítlauksrif

salt og pipar

ólífuolíaSkerið kartöflurnar í fjóra bita.Skerið rauðlaukinn í sneiðar og pressið hvítlauksrifin. Blandið öllu saman í skál með ólífuolíu og kryddið til með salti og pipar.Leggið í eldfast mót og bakið við 200°C í 40–45 mínútur. Mér finnst best að steikja kartöflurnar á pönnu í smá stund áður en ég læt þær í eldfast mót og inn í ofn.

Marinering

1 dós sýrður rjómi

2 tsk. hunangs Dijon-sinnep

½ tsk. hvítlauksduft

salt og pipar

4 kjúklingabringur

5 bollar kornfleks (1 bolli = 2 dl)

2 tsk. hvítlauksduft

2 tsk. fersk steinselja

1 tsk. timían

Salt og pipar

1 msk. ólífuolíaSkerið kjúklingabringurnar eða kjúklingakjötið í álíka stóra bita. Skolið kjötið og þerrið mjög vel.Hitið ofninn í 200°C. Blandið sýrða rjómanum, hunangssinnepi, hvítlauksdufti, salti og pipar saman í skál. Setjið kjúklingabitana út í marineringuna og leyfið þeim að marinerast í nokkrar mínútur (því lengur því betri verður kjúklingurinn). Setjið kornflex, hvítlauksduft, steinselju, timían, salt, pipar og ólífuolíu í matvinnsluvél. Veltið kjúklingabitunum upp úr kornflexinu og þekið hvern bita mjög vel.Leggið bitana á pappírsklædda ofnplötu og bakið við 200°C í 25–30 mínútur. Þegar eldunartíminn er hálfnaður snúið þið bitunum við og dreifið smá olíu yfir þá. Berið fram með hunangssósu, kartöflubátum og fersku grænmeti, t.d. agúrku og gulrótum.

Hunangssósa

1 dós sýrður rjómi

1–2 msk. majónes

2–3 msk. Dijon-sinnep með hunangi

Salt og nýmalaður pipar

1 hvítlauksrif

Blandið öllum hráefnum vel saman í skál eða, sem betra er, í matvinnsluvél.

Ljúffengt karamellupæ

250 g Digestive-kexkökur

150 g smjör

2 tsk. sykur

50 g súkkulaði

Fylling:

2 krukkur dulce de leche

2 bananar

200 ml rjómi

1 tsk. vanillusykur

50 g súkkulaði

Setjið kex, smjör, sykur og súkkulaði í matvinnsluvél. Hellið blöndunni í hringlaga form, helst lausbotna, og þrýstið kexblöndunni í formið og upp með hliðum á forminu. Kælið botninn í hálftíma áður en þið setjið fyllinguna í hann. Fyllið botninn með karamellunni, skerið banana í sneiðar og raðið þeim yfir karamelluna. Þeytið rjóma með smá vanillusykri og dreifið yfir pæið. Saxið dökkt súkkulaði og sáldrið yfir. Kælið pæið mjög vel áður en þið berið það fram.

Makkarónur með osti

250 g makkarónupasta

1 msk. ólífuolía

150 g beikon, smátt skorið

300 g sveppir

1 rauð paprika

1 msk. smátt söxuð steinselja

1 msk. smátt saxað timían

2 msk. smjör

1 laukur, sneiddur

500 ml matreiðslurjómi

200 ml grænmetissoð (soðið vatn + einn grænmetisteningur)

100 g rifinn Parmesan-ostur

100 g rifinn Cheddar-ostur

1 msk. smátt söxuð steinselja

Salt og pipar

Hitið ofninn í 180°C. Sjóðið makkarónupasta samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Hellið vatninu af og setjið pastað í eldfast mót. Hitið olíu á pönnu og steikið beikonið í nokkrar mínútur, bætið sveppum og papriku út á pönnu og steikið. Kryddið með salti og pipar. Saxið niður ferskar kryddjurtir og dreifið yfir.Blandið beikonblöndunni saman við makkarónupastað. Hitið smjör á pönnu, sneiðið niður einn lauk og steikið upp úr smjörinu í nokkrar mínútur við vægan hita eða þar til laukurinn verður mjúkur í gegn. Hellið matreiðslurjómanum og grænmetissoðinu saman við og leyfið sósunni að malla í nokkrar mínútur. Rífið niður Parmesan-ost og Cheddar, setjið út í sósuna og leyfið ostinum að bráðna í rólegheitum. Kryddið til með salti og pipar.Hellið sósunni yfir pastað og blandið saman með skeið. Rífið niður nóg af osti, t.d. Mozzarella og Cheddar, og dreifið yfir formið. Bakið við 180°C í 30 mínútur eða þar til osturinn er gullinbrúnn. Saxið ferska steinselju og dreifið yfir réttinn í lokin áður en þið berið hann fram.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.