Viðskipti innlent

Kolbeinn ráðinn fjármálastjóri Hölds

Atli Ísleifsson skrifar
Undanfarin tvö ár hefur Kolbeinn starfað sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Eik fasteignafélagi hf.
Undanfarin tvö ár hefur Kolbeinn starfað sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Eik fasteignafélagi hf. Mynd/Höldur
Kolbeinn Friðriksson hefur verið ráðinn fjármálastjóri hjá Höldi ehf – Bílaleigu Akureyrar. Hann mun taka til starfa á næstu mánuðum.

Undanfarin tvö ár hefur Kolbeinn starfað sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Eik fasteignafélagi hf, þar áður hjá Íslandsbanka og Bakkavör.

Í tilkynningu kemur fram að Kolbeinn segist hlakka til að takast á við spennandi og krefjandi starf hjá mjög öflugu og ört stækkandi fyrirtæki á Akureyri. „Jafnframt hlökkum við fjölskyldan til að flytjast búferlum í heimahagana til Akureyrar. Undanfarin ár hafa verið mjög lærdómsrík hjá Eik fasteignafélagi og mun sú jákvæða reynsla nýtast mér mjög vel í komandi verkefnum“.

Steingrímur Birgisson forstjóri Hölds segir það mikið gleðiefni að fá Kolbein til liðs við fyrirtækið. „Ég tel að Kolbeinn muni falla einstaklega vel inn í okkar öfluga hóp starfsmanna. Kolbeinn býr yfir mikilli reynslu sem mun nýtast fyrirtækinu vel og mun hann leika lykilhlutverk í að gera gott fyrirtæki enn betra.“

Kolbeinn lauk M.Sc. gráðu í fjármálum frá Berlin School of Economics and Law árið 2011, B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2005 og stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 2001. Auk þess er hann með próf í verðbréfaviðskiptum.

Höldur var stofnað árið 1974 og eru starfsmenn á bilinu 220 til 270 eftir árstíma.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×