Innlent

Brotið á ungu fólki í ferðaþjónustubransanum

Una Sighvatsdóttir skrifar
Ferðaþjónustan er nú í miklum blóma á Íslandi, en hún á sér líka sínar skuggahliðar því að reynslu stéttarfélaga er það helst í ferðaþjónustu þar sem brotið er á starfsfólki og það er einkum ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði.

Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag segir Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju að tugir mála hafa komið þar inn á borð vegna brota á kjarasamningum í ferðaþjónustu. Það sama er uppi á teningnum hjá Eflingu stéttafélagi.

„Þetta endurspeglar þá miklu fjölgun sem hefur átt sér stað í ferðaþjónustunni. Í Eflingu er núna fjórðungur af okkar félagsmönnum sem starfar í ferðaþjónustu, þannig að það er mikil aukning. Þetta var 10% fyrir þremur árum en nú er þetta fjórðungur og þar af er um 60% ungt fólk sem er undir tvítugt," segir Harpa Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjaramála hjá Eflingu.

Fyrirtæki ganga á lagið

Hún segir að miðað við fjölda mála, hjá fyrirtækjum sem eigi að þekkja fullvel til þess hvernig framfylgja beri kjarasamningum, þá megi draga þá ályktun að víða sé verið að ganga á lagið og nýta sér ástandið. Hún hvetur launafólk til að leita til síns stéttarfélags ef það telur á sér brotið.



„Þetta er oft ungt fólk sem þekkir ekki frétt sinn og grípur líka fegins hendi að fá tækifæri til að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði og öðlast þannig reynslu. En að sjálfsögðu ber að virða kjarasamninga gagnvart ungu fólki, eins og öllum öðrum.

Algengast er að laun séu ekki greidd samkvæmt lágmarkstöxtum. Björn nefnir sem dæmi í samtali við fréttastofu að fjölmörg dæma séu um að ungt fólk vinni yfir 200 vinnustundir á mánuði á dagvinnutaxta. Full vaktavinna er 173,3 stundir. Björn segir grófasta dæmið ungan starfsmann sem vann 240 stundir án þess að fá greitt yfirvinnuálag.

Ferðamálafræðinemar hafa áhyggjur

Háskólanemar í ferðamálafræðum sækja margir hverjir í að vinna sumar- og hlutastörf í ferðaþjónustu með náminu. Guðbjörg Ása Eyþórsdóttir og Tinna Níelsdóttir, sem báðar sitja í stjórn Fjallsins, félags jarðvísinda-, land- og ferðamálafræðinema, segja fréttir af kjarasamningsbrotum í ferðaþjónustu áhyggjuefni hjá nemendum sem mennti sig til starfa við greinina.



„Ferðaþjónustan stendur frammi fyrir mörgum krefjandi verkefnum á næstunni og það er þörf á fagmenntuðu fólki. Því hafa neikvæðar fréttir um réttindabrot mjög fælandi áhrif á fólk sem er að læra," segir Tinna. Hún bendir á að fyrirtæki í ferðaþjónustu ættu að sjá sér hag í því að halda starfsfólki ánægðu og til lengri tíma, til að efla þekkingu og reynslu.



Guðbjörg Ása segir mikilvægt að réttindi starfsfólks séu virt í einni stærstu atvinnugrein landsins. „Fólk sem starfar í ferðaþjónustu er oft ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði og þar af leiðandi kannski ekki alltaf meðvitað um réttindi sín. Það er mikilvægt að fyrirtæki nýti sér ekki þá vanþekkingu starfsfólks, og líka að eigendur fyrirtækja viti skyldur sínar gagnvart starfsfólki og virði það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×