Viðskipti innlent

Telja breytingar á áfengisgjöldum bitna á bruggurum

ingvar haraldsson skrifar
Almar bendir á að greiða þurfi áfengisgjald strax við framleiðslu áfengis og það fáist ekki endurgreitt.
Almar bendir á að greiða þurfi áfengisgjald strax við framleiðslu áfengis og það fáist ekki endurgreitt. vísir/gva
„Það er ekki verið að létta fólki reksturinn,“ segir Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Kalda, um breytingar á virðisaukaskatti og áfengisgjöldum í fjárlagafrumvarpi ársins 2016.

Samkvæmt því mun áfengi færast í neðra virðisaukaskattþrep og lækka því úr 24 prósentum í 11 prósent en áfengisgjöld verða hækkuð á móti svo breytingin á ekki að hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Almar Guðmundsson
Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir breytingarnar koma illa við innlenda áfengisframleiðendur. „Þetta bitnar mjög hart á áfengis- og bjórframleiðendum og verður mjög íþyngjandi fyrir þessa aðila vegna þess að greiðslufrestur og greiðsluskilmálar áfengisgjalds eru miklu harðari og þar að leiðandi þýðir þessi breyting það að þetta verður allt þyngra í vöfum,“ segir Almar.

Hann bendir á að áfengisgjald sé gert upp á tveggja vikna fresti en virðisaukaskattur á tveggja mánaða fresti. Þetta skapi aukna hættu á að áfengisframleiðendur tapi fé verði veitingastaðir eða barir gjaldþrota.

Agnes tekur undir áhyggjur Almars og vill að kerfið verði einfaldað svo hægt verði að gera upp virðisaukaskatt, áfengisgjald og skilagjald samtímis en ekki í þrennu lagi eins og er nú.

Almar segir breytinguna vera hugsaða til hagsbóta fyrir veitingageirann sem selji þá vörur í einu virðisaukaskattsþrepi og það geri Samtök iðnaðarins ekki athugasemd við.

„En þetta kemur sérstaklega illa niður á smærri aðilum sem framleiða í litlu magni og selja inn á veitingahús. Þetta hamlar því nýsköpun, kemur niður á samkeppni og gæti leitt til minna vöruframboðs. Þannig að þetta kemur fram sem högg fyrir þessa aðila,“ segir hann.

Þá hefur breytingin í för með sér aukinn fjármagnskostnað fyrir framleiðendur sem gætu þurft að hækka verð til að mæta þessum aukna kostnaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×