Viðskipti innlent

Múlakaffi með rúma tvo milljarða í veltu

Sæunn Gísladóttir skrifar
Jóhannes Stefánsson, eigandi Múlakaffi, rekur meðal annars veitingaþjónustu í Hörpu.
Jóhannes Stefánsson, eigandi Múlakaffi, rekur meðal annars veitingaþjónustu í Hörpu. Vísir/Stefán Karlsson
Múlakaffi ehf. hagnaðist um 65 milljónir á síðasta ári. Rekstrartekjur á árinu námu tæpum 867 milljónum króna og jukust um 42 milljónir milli ára. Múlakaffi á dótturfélögin GJ veitingar ehf., KH veitingar ehf. (75% hlutur) og Kvörnina ehf. sem er fasteignafélag. Meginstarfsemi Múlakaffis og dótturfélaganna GJ veitinga ehf., KH veitinga ehf. og T veitinga ehf. felst í mötuneytis- og veitingarekstri ásamt veisluþjónustu.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu 2,2 milljörðum króna og hagnaðist samstæðan um tæpar 63 milljónir á síðasta ári.

Eignir samstæðunnar nema 847 milljónum og bókfært eigið fé í árslok var rúmar 289 milljónir. Handbært fé í árslok nam tæpum 62 milljónum. Fjöldi ársverka á árinu 2014 var um 140. Arður var greiddur út að verðmæti 50 milljónir króna vegna rekstrarársins. Samkvæmt ársreikningi félagsins er búist við að afkoman á árinu 2015 verði góð og stefnir í veltuaukningu á milli ára. Múlakaffi ehf. er í eigu Jóhannesar Guðvarðs Stefánssonar.

Múlakaffi rekur einnig veisluréttaþjónustu og undirbýr mat fyrir smáa viðburði sem stóra. Múlakaffi rekur veitingastað í Hallarmúla, veisluþjónustu og mötuneyti fyrir fjölda vinnustaða. Dótturfyrirtæki Múlakaffis reka Nauthól annars vegar og Kolabrautina og Hörpudisk í Hörpu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×