Viðskipti innlent

Beinar rútuferðir milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar næsta vor

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line mun bjóða daglegar rútuferðir milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar næsta sumar.
Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line mun bjóða daglegar rútuferðir milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar næsta sumar. Vísir/Gray Line
Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line hefur ákveðið að hefja beinar áætlunarferðir milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar næsta vor. Fyrsta ferðin verður farin sunnudaginn 3. apríl 2016. Í apríl og maí verður ekið þrisvar í viku en daglega yfir sumarið fram í miðjan september.

Áætlun Gray Line Airport Express verður með þeim hætti að brottför verður frá Keflavík kl. 17:00, komið til Akureyrar um kl. 23:00. Þaðan verður haldið kl. 23:15 og komið til Keflavíkur kl. 05:15. Flugfarþegar sem koma til landsins síðdegis komast þannig norður fyrir miðnætti og farþegar að norðan komast beint í morgunflug, segir í tilkynningu frá Gray Line.

Eingöngu lúxusrútur notaðar

Á leiðinni verður stoppað fyrir farþega í Borgarnesi, Staðarskála, Blönduósi og Varmahlíð. Fargjald aðra leið verður 11.000 milli Akureyrar og Keflavíkur, Varmahlíð 10.000 kr., Blönduós 9.000 kr., Staðarskáli 7.000 kr. og Borgarnes 4.500 kr. Eingöngu lúxusrútur úr flota fyrirtækisins verða notaðar á leiðinni.

„Þessi Airport Express áætlun þýðir að farþegar geta verið komnir til Akureyrar fyrir miðnætti sama dag og þeir lenda. Á sama hátt geta þeir sem koma að norðan náð morgunflugi frá Keflavíkurflugvelli og sparað sér þannig að fara suður daginn áður,“ segir segir Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Gray Line.

„Við hlökkum mikið til að geta boðið landsbyggðinni upp á þessa beinu tengingu við millilandaflugið. Það á jafnt við um Norðurlandið og þá staði sem eru á leiðinni. Við teljum líka að þessi beina tenging við alþjóðaflugið geti stuðlað að lengri dvöl ferðamanna úti á landi og verið ákjósanlegur valkostur fyrir þá sem eiga aðeins erindi þangað og ætla ekki að stoppa á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir íbúa á leiðinni er mikil hagræðing af þessari áætlun, því þá fer minni tími í að komast til og frá flugvellinum, auk þess sem skilja má bílinn eftir heima,“ segir Þórir Garðarsson. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×