Innlent

Fjárhagsaðstoð fyllir upp í götin í kerfinu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Fjöldi þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg jókst gífurlega í kjölfar hrunsins og náði hámarki árið 2012. Í ágúst síðastliðnum þáðu 1.355 fjárhagsaðstoð og hafa ekki verið færri síðan árið 2009. En þeim hefur fækkað meira í öðrum sveitar­félögum, svo sem Hafnarfirði, þar sem strangari skilyrðing fyrir aðstoðinni hefur verið tekin upp.

Síðustu vikuna hafa margir tekið undir orð Bjarkar Vilhelmsdóttur, fyrrverandi formanns velferðarráðs borgarinnar, sem í viðtali við Fréttablaðið talaði um veikleikavæðingu í kerfinu og að of margir fengju aðstoð.

Kristjana Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, segir sviðið vinna á grundvelli laga um að sveitarfélagi sé skylt að veita þeim aðstoð sem ekki geta séð sér og sínum farborða. „Fjárhagsaðstoð er neyðaraðstoð og öryggisnet sem fyllir upp í gatið sem myndast í kerfinu. Þeir sem ekki hafa rétt á atvinnuleysisbótum eða eru ekki vinnufærir fá aðstoðina. Þetta er langt frá því að vera upphæð sem fólk lifir góðu lífi á.“

Öll kerfi misnotuð á einhvern hátt

Upphæð fjárhagsaðstoðar í Reykjavík er tæpar 175 þúsund krónur og er aðstoðin ekki skilyrt. Það þýðir að fólk hefur rétt á aðstoðinni óháð virkni í atvinnuleit eða endurhæfingu.

Fólk er hvatt til virkni og ef það sýnir enga viðleitni er heimilt að skerða upphæðina um helming til styttri tíma. En Kristjana segir ekki gripið til skerðinga í miklum mæli og að enginn missi alveg styrkinn. Þetta hefur verið gagnrýnt.

„Það er lítill ávinningur af því að neyða fólk í eitthvað sem það vill ekki taka þátt í. Okkar verk er að hvetja fólk til dáða og við teljum það vænlegra til árangurs til lengri tíma en að vera með svipuna á lofti. Rannsóknir hafa sýnt að ef fólk er þvingað í störf sem það ræður illa við getur það haft alvarlegar afleiðingar á heilsu þess. En öll kerfi eru misnotuð á einhvern hátt þótt ég leyfi mér að efast um að nokkur maður vilji og velji að vera fastur í fjárhagsaðstoðarkerfi.“

Kristjana bendir einnig á að skerðing á fjárhagsaðstoð geti haft slæm áhrif á alla fjölskylduna.

„Það gleymist stundum í umræðunni að þessi hópur er oft með börn á framfæri. Ef við skerðum fjárhagsaðstoð erum við að skerða fyrirvinnu barnanna líka.“

Þeir sem búa í foreldrahúsum fá tæpar 90 þúsund krónur á mánuði í fjárhagsaðstoð. Bent hefur verið á að það sé ágætis „vasapeningur“ fyrir ungmenni. Kristjana segir unga fólkið sett í algjöran forgang hjá ráðgjöfum. „Við reynum að ná góðu sambandi við unga fólkið og samtalið við ráðgjafana er mikilvægt. Yngsti hópurinn talar mikið um hvaða rétt hann hafi en þá bendum við þeim líka á skyldurnar.“

Ilmur
Fagnar umræðunni

Ilmur Kristjánsdóttir, formaður velferðarráðs, segir engar umræður í gangi um að skilyrða fjárhagsaðstoðina frekar að svo stöddu. „Við viljum frekar nota hvata en skilyrðingar. Nú er kúrfan á leiðinni niður og við sjáum árangur – ef það heldur áfram erum við að gera eitthvað rétt.“

Ilmur segir fjárhagsaðstoð vera tímabundna neyðaraðstoð, ekki áskrift að framlagi. „Og hvað varðar unga fólkið þá viljum við frekar halda því hjá okkur í aðstoð með von um að það fari út á vinnumarkaðinn í stað þess að ýta því á örorkubætur. Annars fagna ég þessari umræðu. Hún hvetur okkur áfram til að gera betur.“

Daníel Þór Harðarson
Ekki gott fyrir neinn að sitja heima

Daníel Þór Harðarson var í átján mánuði í Grettistaki eftir hálft ár á fjárhagsaðstoð. Hann átti lengri sögu um félagslega aðstoð og var tilbúinn að þiggja aðstoð við að breyta lífi sínu.

„Fúsleikinn skiptir miklu máli en það er líka mikilvægt að fara rólega af stað. Fyrst um sinn er erfitt að mæta á ákveðinn stað snemma á morgnana. Fyrir mér var stórt skref að láta mig hafa alls kyns verkefni, eins og að vera með 13 karlmönnum á leirnámskeiði,“ segir Daníel hlæjandi en bætir við að Grettistakið hafi veitt honum sjálfstraust til að fara aftur í skóla. „Ég var orðinn svo óviss um getu mína því maður er búinn að bregðast sjálfum sér svo oft.“


Daníel segir ekki gott fyrir neinn að fá pening í vasann og sitja svo heima og gera ekki neitt allan daginn. „Það er samt líklega erfitt að pína fólk. Það sýnir sig fljótlega að þeir sem vilja ekki þiggja aðstoð hætta fljótt að mæta.“



Í dag vinnur Daníel í byggingarvinnu og ætlar að klára sveinspróf í húsasmíði en hann hóf námið 1994. „Ég er kominn með vinnugleðina aftur og vinnumetnað. Ætli trúin á að ég geti gert eitthvað sé ekki komin aftur.“
Rut Sigtryggsdóttir
Tækifæri allra sem vilja fá tækifæri

Rut Sigtryggsdóttir leitaði eftir fjárhagsaðstoð eftir að hafa farið í áfengismeðferð og verið á núllpunkti í lífi sínu.

„Ég hafði ekki verið í vinnu í langan tíma og fannst erfið tilhugsun að taka skrefið út á vinnumarkaðinn. Því bað ég um aðstoð og var svo boðið að taka þátt í Grettistaki sem er úrræði fyrir þá sem eiga við vímuefnavanda að stríða. Það hjálpaði mér að byggja upp grunn að nýju lífi.“

Rut segir að hún hafi verið mjög viljug til að byggja upp nýtt líf og að þá sé mikill stuðningur í boði hjá borginni. „Það eru tækifæri fyrir alla en spurning hverjir grípa þau. Það eru alltaf til einstaklingar sem vantar allan vilja til að gera eitthvað í sínum málum.“

Rut fór í nám eftir að hafa verið í Grettistaki í 18 mánuði og er þessa dagana í vinnuleit.

„Ég hef verið langan tíma frá vinnumarkaði og þetta getur tekið á. En ég er mun sterkari einstaklingur í dag og kann að takast á við hluti sem ég hefði ekki endilega getað fyrst þegar ég sótti um fjárhagsaðstoð.“

Theódóra Arndís Berndsen
Úr Kvennasmiðjunni í bókhald

Theódóra Arndís Berndsen var ekki vinnufær um tíma vegna vefja- og slitgigtar og þáði þá fjárhagsaðstoð. Henni var boðið að taka þátt í Kvennasmiðjunni þar sem boðið var upp á úrval námsgreina. Hún segir mikinn kost að hafa fengið nokkrar einingar út úr smiðjunni enda virki það hvetjandi fyrir áframhaldandi nám.

„Eftir tímann í Kvennasmiðjunni var ég tilbúnari til að fara út á vinnumarkaðinn. Sérstaklega félagslega þar sem maður venst því að vera í kringum fólk allan daginn. Maður kemst líka í daglega rútínu sem er mjög mikilvægt.“

Theódóra segir borgina þó ekki hafa þrýst á hana að fá sér vinnu. „Kerfið virkar aftur á móti hvetjandi með því að bjóða upp á ýmiss konar virkni. Það er ýtt á mann að hjálpa sér sjálfur. En það er samfélagslegur þrýstingur,“ segir hún og bætir við að hún hafi reyndar gefist upp á vinnuleitinni úti á markaðnum og litið sér nær. „Maðurinn minn stofnaði fyrirtæki og ég fékk vinnu hjá honum við að sjá um bókhaldið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×