Viðskipti innlent

HB Grandi með rúmlega 10 prósent alls aflamarks

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ingunn AK, skip HB Granda.
Ingunn AK, skip HB Granda. Vísir
Fiskistofa hefur úthlutað 368.500 þorskígildistonnum fyrir komandi fiskveiðiár sem hófst í dag. Á síðasta fiskveiðiári var úthlutað 367.060 tonnum og nemur aukningin á milli ára því tæplega 1500  tonnum.

Fimmtíu stærstu fyrirtækin í sjárvarútvegi frá alls 86 prósent allrar úthlutunarinnar í sinn hlut sem er álíka hátt hlutfall og á síðasta ári.  Alls fá 418 fyrirtæki eða lögaðilar úthlutað nú eða um 40 aðilum færra en í fyrra.

Fram kemur á vef Fiskistofu að úthlutun í þorski er rúmlega 190 þúsund tonn og hækkar um 18.300 tonn frá fyrra ári. Ýsukvótinn hækkar um tæp 5 þúsund tonn og fer í 28.950 tonn. Nokkur aukning milli ára er í úthlutun í flestum kvótategundum en þó er nokkur samdráttur í flatfisktegundum. Úthlutað aflamark er alls 435.650 tonn sem er um 3.500 tonnum meira en á fyrra ári enda þótt síldarúthlutun nú sé um 17 þúsund tonnum minni en í fyrra.

HB Grandi fær mest úthlutað til sinna skipa eða um 10.1 prósent af heildarúthlutuninni. Næst á eftir kemur samherji með 5.9 prósent og því næst Þorbjörn hf. 5.5 prósent en þetta er sama röð efstu fyrirtækja og undanfarin ár.

Þá fer mest til skipa með heimahöfn í Reykjavík eða 12,4 prósent af heildinni samanborið við 12,9 prósent í fyrra. Næstmest fer nú til Grindavíkur, eða 11,4 prósent af heildinni sem er aukning um eitt prósentustig frá fyrra ári og fleytir þeirri höfn fram úr Vestmannaeyjum sem löngum hefur verið í öðru sæti hvað aflamark varðar. Skip með heimahöfn í Vestmannaeyjum ráða nú fyrir 9,9 prósent úthlutunarinnar, en það felur í sér 0,6 prósentustiga samdrátt frá fyrra ári.

Alls fá 534 skip úthlutað aflamarki í upphafi nýs fiskveiðiárs samanborið við 578 á fyrra ári. Það skip sem fær úthlutað mestu aflamarki er Kaldbakur EA 1, en hann fær 8.111 þorskígildistonn eða 2,2 prósent af úthlutuðum þorskígildum.

Nánar um úthlutinina á vef Fiskistofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×