Formúla 1

Lewis Hamilton á ráspól á Monza

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Lewis Hamilton var fljótastur í dag.
Lewis Hamilton var fljótastur í dag. Vísir/getty
Lewis Hamilton var fljótastur á Mercedes bílnum og náði sínum sjöunda ráspól í röð. Kimi Raikkonen varð annar á Ferrari og liðsfélagi hans, Sebastian Vettel varð þriðji.

Fyrir tímatökuna var ljóst að Hamilton yrði eini maðurinn með nýju Mercedes vélina. Bilun fannst í nýju vél Nico Rosberg. Hann fékk þó ekki refsingu enda notar hann sömu vél og á Spa það sem eftir er helgarinnar.

Max Verstappen náði ekki að setja tíma, þjónustulið hans náði ekki að klára viðgerð á Toro Rosso bílnum í tæka tíð. Hann fór út á brautina þegar 19 sekúndur voru eftir af fyrstu lotu. Hann náði þó bara að aka út hring og inn hring.

Vélarhlífin á bíl Verstappen losnaði af á úthringnum og splundraðist á brautinni. Það lá greinilega of mikið á að reyna að koma honum út á brautina. Þetta er í fyrsta skipti sem Verstappen kemst ekki áfram úr fyrstu lotu á hans stutta ferli.

Aðrir sem sátu eftir eftir fyrstu lotu voru: Jenson Button og Fernando Alonso á McLaren og Will Stevens og Roberto Merhi á Manor.

Ísmaðurinn (Kimi Raikkonen) var á eldi í dag og ræsir annar á morgun.Vísir/Getty
Í annarrar lotu var Hamilton fljótastur og Ferrari bílarnir komu þar á eftir og Rosberg var fjórði.

Pastor Maldonado á Lotus, Felipe Nasr á Sauber, Carlos Sainz á Toro Rosso og Daniil Kvyat og Daniel Riccardo á Red Bull duttu út í annarri lotu. Ricciardo fór ekki út á brautina í lotunni.

Nico Hulkenberg rann inn á þjónustusvæðið í Force India bílnum í þriðju lotu þegar ekkert afl kom frá vélinni. Hann lagði í bílskúrnum og tók ekki meiri þátt í tímatökunni.

Rosberg átti ekki möguleika með gamla vél um borð. Hún hefur verið í bílnum síðan í Kanada og þarf að klára keppnina á morgun líka. Kannski var hún tónuð niður til að endast örugglega alla keppnina.

Bein útsending frá keppninni hefst á Stöð 2 Sport klukkan 11:30 á morgun.

Hér fyrir neðan má finna öll helstu úrslit helgarinnar á gagnvirku brautarkorti.


Tengdar fréttir

Mercedes í sérflokki á föstudagsæfingum

Lewis Hamilton á Mercedes var fljótastur á báðum æfingum dagsins. Liðsfélagi hans, Nico Rosberg varð annar á báðum æfingum. Bilið milli þeirra var nánast ekkert á seinni æfingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×