Viðskipti innlent

Áframhaldandi aðhald hjá Íslandsbanka: Starfsmönnum mun fækka

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Hagnaður Íslandsbanka á fyrri hluta ársins nam 11 milljörðum króna en það slaknar ekki á aðhaldskröfunni.
Hagnaður Íslandsbanka á fyrri hluta ársins nam 11 milljörðum króna en það slaknar ekki á aðhaldskröfunni. Vísir/Ernir
Hagnaður Íslandsbanka á fyrri hluta ársins nam 11 milljörðum króna. Bankastjórinn boðar áframhaldandi aðhaldsaðgerðir.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, kveðst ánægð með niðurstöðu af rekstri bankans en í morgun var uppgjör fyrir fyrri hluta ársins birtar. Hagnaður bankans nam 11 milljörðum króna á tímabilinu. Bankastjórinn boðar áframhaldandi aðhaldsaðgerðir.

„Við erum bara ánægð með þetta uppgjör, í takt við væntingar, og við sjáum að undirliggjandi rekstur er að styrkjast þó svo það séu ennþá svona óreglulegir liðir í uppgjörinu,“ segir hún. 

Hagnaður Íslandsbanka drógst saman um 3,9 milljarða króna miðað við sama tíma á síðasta ári en samkvæmt tilkynningu bankans voru tekjur af einskiptisliðum umfangsmiklar á síðasta ári. 

Áframhaldandi hagræðing

Til stendur að halda áfram hagræðingaraðgerðum til að lækka kostnað bankans. Birna segir að starfsmönnum muni fækka og að útibúanet bankans sé stöðugt í skoðun.

„Það er alltaf til skoðunar hvernig við byggjum upp okkar útibúanet,“ segir Birna. „Varðandi starfsmannafjölda þá á starfsmönnum efir að fækka en við vonum svo sannarlega að við getum gert það í gegnum svona eðlilega breytingu á starfsmannafjölda hjá okkur.“

En hvað með fyrirhugaða stækkun höfuðstöðva bankans við Kirkjusand?

„Það er eitt af þessum hagræðingarverkefnum sem við erum með í gangi; að skoða hvort að viðbygging við Kirkjusand muni spara okkar kostnað. Svona fyrstu niðurstöður sýna það að það myndi vera hagræðing fyrir bankanna í því fólgin og þess vegna erum við að halda áfram að skoða það verkefni,“ segir Birna.

Þóknanagjöld aukast um 13 prósent

Hreinar vaxtatekjur voru 13,6 milljarðar króna en tekjur bankans af þóknanagjöldum jukust um 13 prósent og námu 6,4 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Sé þrengra tímabil skoðað, eða annar ársfjórðungur, kemur í ljós að hreinar þóknanatekjur námu 3,5 milljörðum króna, sem er tæplega fjórðungs aukning.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir bankinn að almennt séu þóknanatekjur á tekjusviðum að aukast í takt við aukin umsvif. Einnig sé töluverð aukning í þóknanatekjum hjá dótturfélögum bankans, sér í lagi hjá Borgun og Allianz á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×