Viðskipti innlent

Olíuvinnsla verði nauðsynleg í áratugi Svæðisstjóri hjá bandarísku orkustofnuninni BOEM segir olíuvinnslu vera nauðsynlega næstu áratugi þar til betri orkugjafar finnist. Olíuleki BP í Mexíkóflóa hafi breytt miklu fyrir olíugeirann

Borgar sig að bora Dr. James Kendall sérfræðingur í orkumálum og svæðisstjóri hjá BOEM í Alaska.fréttablaðið/gva
Borgar sig að bora Dr. James Kendall sérfræðingur í orkumálum og svæðisstjóri hjá BOEM í Alaska.fréttablaðið/gva
„Við áttum okkur á að að líkindum verði áfram þörf fyrir olíu og gas næstu áratugi. En nú þurfum við að vinna olíu og gas með ábyrgum hætti gagnvart umhverfinu,“ segir James Kendall, svæðisstjóri Bureau of Ocean Energy Management (BOEM) í Alaska. BOEM heyrir undir bandaríska innanríkisráðuneytið og er ábyrgt fyrir nýtingu orkugjafa á hafi úti, þar á meðal olíu, gass og endurnýtanlegra orkugjafa. „Vonin er að með tímanum verði hægt að færa sig frá jarðefnaeldsneyti til endurnýjanlegra orkugjafa. En við áttum okkur á að að líkindum verði áfram þörf fyrir olíu og gas næstu áratugi. En nú þurfum við að vinna olíu og gas með ábyrgum hætti gagnvart umhverfinu,“ segir Kendall. Hins vegar hafi tækninýjungar haft í för með sér að vistvænt fótspor olíuvinnslu hafi dregist saman síðustu áratugi. „Við erum því miður mjög háð olíu og gasi og við þurfum að færa okkur frá því og yfir í endurnýtanlega orkugjafa líkt og Ísland notar. Sú breyting gerist hins vegar ekki á einni nóttu og á meðan þarf að fá orkuna einhvers staðar frá,“ segir hann. Bent hefur verið á að á stórum svæðum borgi sig ekki að bora eftir olíulindum sem vitað sé um vegna lágs olíuverðs. Kendall segir að það taki langan tíma að hefja olíuvinnslu við norðurskautið vegna erfiðra aðstæðna. „Jafnvel þó olíuverð sé lágt núna, þá verður það kannski ekki lágt eftir fimm ár eða tíu ár.“ Hann segir umhverfið við olíuvinnslu við norðurheimskautið afar krefjandi „Það er myrkur og kuldi marga mánuði á ári, innviðir eru takmarkaðir, bæirnir eru fámennir, það eru fáir vegir og engar djúpsjávarhafnir. Svo það þarf að flytja allan búnað sem þarf til djúpsjávarborunar á staðinn.“ Kendall segir olíuleka British Petroleum í Mexíkóflóa hafa breytt miklu. „Við höfum þetta alltaf í huga. En nú er búnaðurinn sem hanna þurfti til að stöðva lekann skyldubúnaður á staðnum,“ segir Kendall. Hann segir slík slys afar fátíð. „Slysið varð á könnunar­stigi olíuvinnslunnar. Það var mjög óheppilegt en slys á könnunarstigi eru mjög sjaldgæf,“ segir hann. Hins vegar þurfi að hafa þetta í huga við olíuvinnslu undan ströndum Alaska. „Þetta er einstakt svæði, það eru hvalir, rostungar og ísbirnir þarna svo það þarf að virða umhverfið sem og frumbyggja sem búa á svæðinu.“ Shell fékk í síðustu viku gefin út leyfi frá bandarískum stjórnvöldum til borunar við norðurheimskautið. Hillary Clinton, sem sækist eftir því að verða forsetaefni demókrata í forsetakosningunum árið 2016, gaf út í síðustu viku að hún væri mótfallin olíuvinnslu við norðurheimskautið. „Það er mikil umræða um hvar olíu- og gasvinnsla eigi að eiga sér stað. Undir stjórn Obama Bandaríkjaforseta hefur áherslan verið á ábyrga nýtingu allra orkugjafa.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×