Viðskipti innlent

Olíuverð ekki verið lægra í sex ár

ingvar haraldsson skrifar
Framboð á olíu hefur aukist að undanförnu en hægst á aukningu eftirspurnar sem skýrir lægra verð að sögn Ketils.
Framboð á olíu hefur aukist að undanförnu en hægst á aukningu eftirspurnar sem skýrir lægra verð að sögn Ketils. vísir/getty
Verð á Brent hráolíu er komið niður fyrir 49 bandaríkjadali á tunnu og hefur ekki verið lægra frá árinu 2009. Greiningaraðilar búast við því að olíuverð haldist lágt um næstu misseri. BMI Research, sem er hluti af greiningarfyrirtækinu Fitch, býst við að olíuverð haldist lágt fram til ársins 2018 þar sem framboð á olíu muni líklega aukast hraðar en eftirspurn eftir neysluvörum.

Ketill Sigurjónsson segir eftisprunarslaka í Kína helstu ástæðu lækkandi olíuverðs.
Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, býst við að verða á olíu og annarri hrávöru haldist lágt. „Til skemmri tíma litið, ef við lítum eitt ár fram í tímann, verður olíuverð alveg örugglega mjög lágt. Miðað við spár sem hafa verið að koma fram undanfarið hafa verið að koma fram eru menn að verða heldur svartsýnni. Goldman Sachs og fleiri eru að spá mjög lágu hrávöruverði, næstu þrjú árin,“ segir Ketill.

Ketill telur helstu skýringuna á lækkandi olíuverði vera að hægst hafi á efnahagsvextinum í Kína. Á sama tíma hafi olíuframleiðsla í Bandaríkjunum aukist. „Þegar þetta tvennt fer saman er mjög eðlilegt að olíuverð lækki.“ segir Ketill.

„Eftirspurnarslakinn í Kína virðist vera meiri en nokkur bjóst við. Þetta kemur líka fram í verði á mörgum öðrum hrávörum sem hafa verið að lækka mjög mikið. Það má eiginlega rekja það allt saman til Kína,“ segir Ketill. Fjárfestar hafi veðjaða á að efnahagsvöxturinn í Kína myndi halda áfram sem valdið hafi offjárfesting í orkuiðnaðnum. „Menn bjuggust við því að það yrði alltaf meiri og meiri eftirspurn frá Kína. Um leið og það er smá slaki þá sitja menn uppi með öll nýju verkefnin og fara að bjóða lægri verð. Þá gerist það mjög hratt að verðið fer niður,“ segir Ketill. Við þetta bætist að hagvöxtur í Evrópu sé lítill. Þá séu líkur á að efnahagsþvingunum gagnvart Írönum verði aflétt á næstunni sem aukið gæti olíuútflutning Írana sem stuðli enn frekar að því að olíuverð haldist lágt.

Lækkun olíuverðs skiptir Íslendinga miklu máli. Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda segir að eins króna lækkun bensínverðs skili íslenskum neytendum 300 milljónum króna á ársgrundvelli. Þá sagði Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, á fundi um Hagfræðideildarinnar í mars að haldist olíuverð lágt gæti það sparað íslensku þjóðarbúi 40 milljarða króna á ári.

Ketill á þó von á því að sé horft til lengri tíma muni olíuverð hækka á ný. Haldist olíuverð jafn lágt og nú standi ný olíuverkefni ekki undir sér. Að lokum muni það hafa í för með sér að framboð eftir olíu dragist saman muni það þrýsta verðinu upp á ný miðað við óbreytta eftirspurn sem muni þrýsta verðinu upp á ný. Hvenær það verði og hve mikið verð hækki sé hins vegar nær ómögulegt að spá fyrir um.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×