Viðskipti innlent

Hagnaður Síldarvinnslunnar sex milljarðar á síðasta ári

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Síldarvinnslan á Neskaupsstað.
Síldarvinnslan á Neskaupsstað. mynd/kristín svanhvít hávarðsdóttir
Hagnaður Síldarvinnslunnar hf. á síðasta ári nam sex milljörðum króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Afkoma fyrirtækisins, áður en tekið er tillit til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og afskrifta, var jákvæð upp á 7,3 milljarða en rekstrartekjur samstæðunnar voru alls 21,4 milljarðar. Reiknaður tekjuskattur nam 1,2 milljörðum. Eins og fram hefur komið á Vísi hyggst fyrirtækið fresta ákvörðun um arðgreiðslur vegna óvissu í kjölfar aðgerða Rússa gagnvart NATO ríkjunum.

Hjá samstæðu Síldarvinnslunnar störfuðu 290 manns til sjós og lands um síðustu áramót. Launagreiðslur félagsins voru rúmar 3.300 milljónir króna á árinu 2014 en af þeim greiddu starfsmenn 1.120 milljónir í skatta. Fram kom í máli Þorsteins Más Baldvinssonar, stjórnarformanns, að Síldarvinnslan mun ekki grípa til uppsagna vegna innflutningsbannsins. Starfsfólk fyrirtækisins gerir sér hins vegar grein fyrir því að vinnan gæti dregist saman einkum vegna tapaðra loðnumarkaða.

Alls greiddi fyrirtækið 3,1 milljarða í gjöld til ríkisins á síðasta ári. Líkt og áður hefur komið fram nam greiddur tekjuskattur 1,2 milljörðum en önnur opinber gjöld námu milljarði. Veiðigjöld voru 900 milljónir.

Í fyrra fjárfesti fyrirtækið fyrir tíu milljarða króna. Þúsund fermetra bygging var reist til að auka og bæta uppsjávarvinnslu félagsins og nýtt uppsjávarskip, Börkur NK122, var keypt frá Noregi. Að auki var fjárfest í hlutabréfum í Gullbergi hf. á Seyðisfirði og í aflaheimildum frá Stálskipum í Hafnarfirði.

Í uppsjávarvinnsluna var landað 65.000 tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru 36.000 tonn. Þar vega makrílafurðir þyngst og síðan síldarafurðir og loks loðnuafurðir. Verðmæti framleiðslunnar var 6.250 milljónir króna. Um frystigeymslurnar fóru 75.000 tonn af afurðum á árinu. Samtals nam framleiðsla á afurðum 85.000 tonnum á árinu 2014 að verðmæti tæplega 16,5 milljarðar króna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×