Viðskipti innlent

Ungt fólk í fjárfestingum vill ekki brenna sig líkt og í hruninu

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Færri komust að en vildu á fræðslufund um fjárfestingar ungs fólks í Háskólanum í Reykjavík í dag. Fræðslustjóri VÍB segir mikla aðsókn vera merki um að ungt fólk vilji ekki brenna sig með þeim hætti sem gerðist í hruninu.

Það var félag Ungra fjárfesta sem stóð fyrir fundinum. Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri VÍB, hélt erindi en hann segir mikilvægast fyrir ungt fólk að gefa sér tíma þegar kemur að fjárfestingum og kynna sér málin vel.

Þarf ungt fólk að eiga mikið af peningum til að geta fjárfest?

„Nei og það er kannski einn algengasti misskilingurinn. Við þurfum ekki að hafa nema kannski smá varasparnað eða bara reglulegar tekjur og þá er hægt að leggja smátt og smátt fyrir. Og það er gott að tala við unga fjárfesta því ef við byrjun snemma að þá vegur það mjög þungt þegar upp er staðið,“ segir Björn.

Fundurinn var eingöngu auglýstur á samfélagsmiðlum og höfðu rúmlega 1.300 manns boðað komu sína á viðburðinn á Facebook, en færri komust að en vildu.

Þetta hljómar nú svolítið eins og árið sé 2007. Er komið annað góðæri?

„Ég held kannski að þetta sé vitnisburður um það að þessi kynslóð sem að er núna í háskóla og er kannski að fara út á vinnumarkaðinn bráðum, hefur áhuga á því að læra um þessa hluti sjálf. Og ég held að það sé merki um heilbrigði þessarar kynslóðar að vilja fræðast um þetta til þess að brenna sig ekki með sama hætti og margir gerðu í hruninu,“ segir Björn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×