Viðskipti innlent

Akur kaupir helming Gray Line

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hluti bílaflota Grey line.
Hluti bílaflota Grey line. mynd/grey line
Akur fjárfestingar hefur keypt tæplega helming hlutafjár í Iceland Excursions Allrahanda ehf., sérleyfishafa Gray Line á Íslandi og samhliða kaupunum hefur verið gerð sátt við Samkeppniseftirlitið. Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka veitti ráðgjöf og hafði umsjón með framkvæmd viðskiptanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Akur fjárfestingar er fagfjárfestasjóður í rekstri Íslandssjóða. Stofnendur Gray Line á Íslandi, þeir Þórir Garðarsson og Sigurdór Sigurðsson, munu áfram eiga meirihluta í félaginu og starfa ásamt öðrum lykilstjórnendum þess að áframhaldandi uppbyggingu Gray Line á Íslandi. Kaupverðið fæst ekki gefið upp.

„Það er mjög ánægjulegt að fá fagfjárfesta eins og Akur að rekstri félagins og í ferðaþjónustuna almennt. Þetta styrkir bakland ferðaþjónustunnar og stuðlar að aukinni fagmennsku í greininni,“ segir Þórir Garðarsson stjórnarformaður Gray Line á Íslandi.

„Að mati Akurs eru fyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu mjög áhugaverður fjárfestingarkostur. Atvinnugreinin hefur þroskast og vaxið verulega undanfarin ár og skilaði í fyrra tæpum þriðjungi af gjaldeyristekjum landsins, eða 303 milljörðum króna. Við horfum björtum augum á framtíðina í íslenskri ferðaþjónustu,“ segir Jóhannes Hauksson, framkvæmdastjóri Akurs fjárfestinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×