Viðskipti innlent

Allir starfsmenn myndu fá vinnu hjá Alvogen

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Allir 300 starfsmenn Actavis munu halda sinni vinnu gangi kaup Alvogen á lyfjaverksmiðjunni í Hafnarfirði eftir. Forstjóri Alvogen segir starfsemina í Hafnarfirði vel geta verið samkeppnishæfa.

Actavis tilkynnti á mánudag að lyfjaverksmiðju fyrirtækisins í Hafnarfirði verði lokað um mitt ár 2017. Er þetta gert í hagræðingarskyni.

Fréttablaðið greindi síðan frá því í morgun að lyfjafyrirtækið Alvogen hefði lagt fram kauptilboð í verksmiðjuna fyrir tveimur vikum með það að markmiði að tryggja áframhaldandi rekstur.

„Almennt séð voru viðbrögðin ekki neikvæð. Það er að segja, menn voru tilbúnir að skoða hugsanlega sölu á verksmiðjunni. En það strandaði á því hvort að menn voru tilbúnir að láta frá sér aðra starfsemi hér á Íslandi með í kaupunum eða ekki,“ segir Róbert Wessman, forstjóri Alvogen.

Tilboðinu var því formlega hafnað en Róbert segir enn mikinn áhuga hjá Alvogen að kaupa verksmiðjuna. Hann segir starfsemina í Hafnarfirði vel geta verið samkeppnishæfa.

Alls munu um 300 starfsmenn missa vinnuna í Hafnarfirði ef verksmiðjunni verður lokað. En koma þessir starfsmenn til með að halda sinni vinnu, gangi kaup Alvogen eftir?

„Ég hefði nú, eins og við höfum skoðað þetta, við fengum aðgang að ákveðnum gögnum. Við hefðum rekið verksmiðjuna í óbreyttri mynd. Actavis hefði þá flutt út sína framleiðslu á tiltölulega skömmum tíma og við hefðum þá á sama tíma byrjað að færa inn okkar framleiðslu. Þannig að við hefðum fyllilega gert ráð fyrir því já,“ segir Róbert.

Boltinn í samningaviðræðunum sé því hjá Actavis en forsvarsmenn fyrirtækisins vildu ekki veita viðtal vegna málsins í dag.


Tengdar fréttir

Róbert vill kaupa Actavis

Lyfjafyrirtækið Alvogen vill kaupa verksmiðju Actavis í Hafnarfirði. Formlegt tilboð var lagt fram fyrir tveimur vikum og er upphæð tilboðsins á fimmta milljarð króna. Til stendur að loka verksmiðjunni árið 2017.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×