Viðskipti innlent

Andri Guðmundsson í stjórn Fossa

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Andri Guðmundsson er nýr í stjórn Fossa.
Andri Guðmundsson er nýr í stjórn Fossa.
Andri Guðmundsson var kjörinn nýr aðalmaður í stjórn Fossa markaða hf. á hluthafafundi 6. júlí síðastliðinn. Andri starfaði hjá H.F. Verðbréfum hf. í 10 ár bæði við verðbréfamiðlun og fyrirtækjaráðgjöf. Hann var framkvæmdastjóri H.F. Verðbréfa 2011-2014. Í tilkynningu kemur frma að Andri hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og er viðurkenndur ráðgjafi á First North. Þá situr hann í stjórn Viðskiptaráðs Íslands og stjórn sænsk-íslenska viðskiptaráðsins. 

Aðrir aðalmenn í stjórn Fossa markaða eru Sigurbjörn Þorkelsson, sem er stjórnarformaður, og Kolbeinn Arinbjarnarson. Varamenn í stjórn eru Magnús Gunnarsson, Anna Þorbjörg Jónsdóttir og Gunnar Egill Egilsson.

Í síðustu viku fékk Fossar markaðir aðild að hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum Kauphallarinnar. Með aðildinni hafa starfsmenn beinan aðgang að viðskiptakerfi Kauphallarinnar og geta lagt fram kaup- og sölutilboð og tilkynnt um viðskipti með verðbréf fyrir hönd viðskiptavina.

Áður hafði Fjármálaeftirlitið veitt Fossum mörkuðum starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki. Fyrirtækið getur því veitt viðskiptavinum sínum þjónustu á sviði markaðsviðskipta, vörsluþjónustu og fjárfestingaráðgjöf samkvæmt starfsleyfi FME og eftir reglum Nasdaq Iceland. Auðkenni Fossa í viðskiptakerfinu Kauphallarinnar er FOS.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×