Viðskipti innlent

Segja Seðlabankann vinna gegn eigin vaxtahækkunum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA. mynd/aðsend
Úr niðurstöðum nýrrar úttektar Samtaka atvinnulífsins má lesa að Seðlabankinn hafi keypt gjaldeyri í skiptum fyrir íslenskar krónur frá september 2013 til að koma í veg fyrir styrkingu krónunnar. Ef fram fer sem horfir er útlit fyrir að gjaldeyriskaup Seðlabankans á þessu ári geti numið vel yfir 200 milljarða króna segir í tilkynningu frá SA.

Í tilkinningunni segir einnig að inngrip Seðlabankans séu ekki án kostnaðar en Seðlabankinn greiðir gjaldeyriskaup sín með „peningaprentun“, m.ö.o. auka inngrip Seðlabankans peningamagn í umferð. Inngrip Seðlabankans eru um þessar mundir að mestu leyti óstýfð inngrip en það þýðir að Seðlabankinn grípur ekki til mótvægisaðgerða til að draga úr aukningu peningamagns. Þessu til viðbótar fylgir því kostnaður fyrir ríkið af miklum vaxtamun, einkum þegar stjórnvöld og í raun Seðlabankinn hafa lofað nánast óbreyttri krónu.

Seðlabankinn sé því í nokkuð undarlegri stöðu. Annars vegar er hann byrjaður að hækka stýrivexti á ný og boðar frekari vaxtahækkanir á næstu mánuðum, en um leið eykur hann peningamagn í umferð með inngripum á gjaldeyrismarkaði. Verðlagsáhrif þess að auka peningamagn í umferð eru þau sömu og ef Seðlabankinn lækkar vexti, því slíkt stuðlar að verðbólgu, lækkar virði krónunnar til lengri tíma litið og skapar þrýsting á markaðsvexti til lækkunar. Seðlabankinn er því m.ö.o. að draga úr áhrifum sinna eigin vaxtahækkana með inngripum á gjaldeyrismarkað segir í tilkynninunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×