Viðskipti innlent

Atvinnuleysi í maí mældist 6,7%

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Að jafnaði voru 197.100 á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði.
Að jafnaði voru 197.100 á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði. vísir/anton brink
Atvinnuleysi á Íslandi mældist 6,7 prósent í maí samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Að jafnaði voru 197.100 á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði en af þeim voru 183.900 manns í vinnu og 13.200 án atvinnu og í atvinnuleit.

Samanburður mælinga fyrir maí 2014 og 2015 sýnir að hlutfall vinnuafls og starfandi fólks af heildarmannfjölda stendur í stað. Atvinnulausum fækkaði þó lítillega, eða um 700 manns og er atvinnuleysi lægra sem nemur 0,5 prósentustigum.

Í frétt Hagstofunnar kemur fram að fyrri mælingar á atvinnuleysi sýna að í maí er atvinnuleysi alltaf mest miðað við aðra mánuði ársins. Ástæða þessarar aukningar er að á vormánuðum kemur ungt fólk í auknum mæli inn á vinnumarkaðinn í leit að sumarstörfum.

Í maí á þessu ári var atvinnuleysi á meðal 16-24 ára 15,4% á meðan það var 4,6% hjá 25 ára og eldri. Borið saman við maí í fyrra þá var atvinnuleysi hjá 16-24 ára 16,7% og 5% hjá 25 ára og eldri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×