Viðskipti innlent

Mercedes kynnir sjálfkeyrandi bíla á Haustráðstefnu Advania

Advania heldur hina árlegu Haustráðstefnu í 21. sinn þann 4. september í Hörpu. Líkt og áður er margt í boði en alls eru 29 fyrirlestrar á dagskrá ráðstefnunnar.

Meðal þess sem stendur upp úr er fyrirlestur frá Mercedes-Benz þar sem talað verður um framtíðarsýn fyrirtækisins fyrir sjálfkeyrandi bíla. Mercedes kynnti nýlega sjálfkeyrandi tilraunabílinn F 015 en hægt er að horfa á umfjöllun tæknimiðilsins Cnet um hann í myndbandinu hér fyrir ofan.

Samfélagsbreytingar sem upplýsingatækni mun fela í sér verða fyrirferðamiklar á ráðstefnunni; Hægt verður að stýra tölvum og jaðartækjum með raddskipunum, með nýrri tækni getur fólk sem misst hefur útlim stýrt stoðtækjum með hugarorkunni og aðstoð skynjara og gervigreindar, sjálfkeyrandi bílar munu umbylta samgöngum og borgarskipulagi.

Meðal annarra fyrirlestra á ráðstefnunni eru:

  • Geimvísindastofnun Evrópu segir frá því hvernig lent er á halastjörnu
  • Stoðtækjafyrirtækið Össur sýnir nýjan gervifót sem er stýrt með hugarafli 
  • Hvað veit Google mikið um okkur og hvernig nýtir fyrirtækið gervigreind til að kenna tölvum máltækni og keyra bíla?
  • Rakel Sölvadóttir frumkvöðull og Ólína Helga Sverrisdóttir fjalla um mikilvægi sköpunar í stafrænum heimi
  • Jón Tetzchner frumkvöðull ræðir um nýsköpun og nýjan netvafra
  • Gísli Marteinn Baldursson kemur ferskur frá Harvard háskóla og fjallar um mikilvægi snjalls borgarskipulags fyrir lífsgæði fólks
Einnig verða fyrirlestrar frá Dell, Microsoft, Ríkisskattstjóra, Knowledge Factory, NCR, IKEA, Arion banka, Bókun, Veeam, Videntifier, Veðurstofu Íslands, Raythen|Websense, Strimli, WSP, Karolina Fund, HP og Háskólanum í Reykjavík. 

Ráðstefnan er með nýju sniði í ár. Fyrir hádegi er boðið upp á dagskrá í Eldborgarsal og eftir hádegi eru þrjár fyrirlestralínur með 18 fyrirlestrum.

Haustráðstefna Advania er stærsti viðburður ársins í upplýsingatækni hér á landi og jafnframt ein elsta árlega tækniráðstefna í Evrópu. Samanlagt hafa um 15 þúsund gestir sótt ráðstefnuna frá upphafi. Alls hafa rúmlega 800 fyrirlestrar verið haldnir á þessum ráðstefnum. Nánari upplýsingar og skráningu er að finna á advania.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×