Viðskipti innlent

SPRON-málið: „Engar vísbendingar um að brot hafi yfir höfuð átt sér stað“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá aðalmeðferð málsins fyrr í þessum mánuði.
Frá aðalmeðferð málsins fyrr í þessum mánuði. vísir/gva
Óttar Pálsson, verjandi Rannveigar Rist sem sýknuð var af ákæru um umboðssvik í morgun, segir í samtali við Vísi að niðurstaða héraðsdóms í málinu sé ánægjuleg og í samræmi við það sem lagt var upp með.

Fyrrverandi forstjóri SPRON og fjórir fyrrum stjórnarmenn sjóðsins voru ákærð fyrir umboðssvik vegna tveggja milljarða króna peningamarkaðsláns sem SPRON lánaði Exista þann 30. september 2008. Fimmmenningarnir voru allir sýknaðir fyrir dómi í dag.

Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Margrétar Guðmundsdóttur sem sat í stjórn SPRON, segir að dómurinn komi ekki á óvart. Hann sé afdráttarlaus og meðal annars hafi ekkert komið fram í málinu sem bendi til þess að ekki hafi verið aflað nægjanlegra upplýsinga um Exista. Þvert á móti segir dómurinn að hið gagnstæða eigi við og að stjórnin hafi byggt á nýjustu og bestu upplýsingum sem völ var á þegar lánið var veitt.

Engin skilyrði sakfellingar til staðar

„Það er því ekki þannig að það skorti upp á að eitthvað teljist sannað í málin og að það ráði niðurstöðunni, þvert á móti finnur dómurinn engar vísbendingar um að brot hafi yfir höfuð átt sér stað. Dómurinn fellur því ekki á skorti á sönnun sem slíkri heldur öllu fremur á því að nákvæmlega engin skilyrði sakfellingar séu til staðar. Ekki eitt einasta,“ segir Páll.

Hann segist ekki eiga von á því að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar en bendir jafnframt á að það séu aðrir sem taki ákvörðun um það.

Aðspurður hvort hann vilji eitthvað segja um málatilbúnað sérstaks saksóknara vegna málsins segir Páll:

„Nei. Það væri ósanngjarnt að beina einhverjum gífuryrðum að Sérstökum saksóknara vegna þessa máls. Þar vinnur gott, heiðarlegt og hæft fólk sem er að gera sitt besta og vinnur mikilvægt starf í þágu samfélagsins.“


Tengdar fréttir

Öll sýknuð í SPRON-málinu

Fyrrverandi forstjóri SPRON og fjórir fyrrverandi stjórnarmenn sparisjóðsins voru sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag af ákæru um umboðssvik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×