Viðskipti innlent

Seðlabankinn varar ríkisstjórnina við of mikilli útgjaldaukningu

ingvar haraldsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. vísir/vilhelm
Peningastefnunefnd Seðlabankans varar stjórnvöld við því að skapa of mikla þenslu í hagkerfinu með vexti ríkisútgjalda. Verði það raunin gæti Seðlabankinn þurft að bregðast við.



Í yfirlýsingu
er bent á að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir kjarasamningum séu ófjármagnaðar og munu auka ríkisútgjöld og draga úr skatttekjum. Þær muni að öðru óbreyttu í draga úr aðhaldi í ríkisfjármálum.

Tekjur ríkisins af nauðasamningum slitabúa föllnu bankanna gætu numið 500 til 700 milljörðum króna að mati Sigurðar Hannessonar, varaformanns framkvæmdahóps um afnám hafa, líkt og fram kom í Markaðnum í dag.



Seðlabankinn varar við því að því fé verði með þeim hætti að það muni auka á spennu í þjóðarbúskapnum með því að virkja peningamagn sem hingað til hafi verið óvirkt. „Peningastefnunefndin mun fylgjast grannt með framvindunni og grípa til viðeigandi aðgerða til mótvægis ef þörf krefur,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði þó á fundi þar sem vaxtákvörðun nefndarinnar var rökstudd að ekki væri ástæða til að ætla annað en að það fé sem  kynni að falla ríkissjóði í skaut við losun hafta yrði nýtt til að grynnka á skuldum ríkisins. Engu síður myndi Seðlabankinn fylgjast vel með þróun mála áfram.



Óákveðið hve mikið verður hækkað næst


Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 0,5 prósentustig í 5 prósent í morgun. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar kom einnig fram að von væri á frekari vaxtahækkunum í ágúst og á næstu misserum til að viðhalda verðstöðugleika.

Már sagði á fundi að hve miklar hækkanirnar yrðu og á hvaða tímapunkti þær kæmu fram myndi m.a. velt á að hve miklu leyti launahækkanir í nýlegum kjarasamningum myndu skila sér út í verðlag og hve miklar launahækkanir yrði samið um í kjaraviðræðum sem enn standa yfir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×