Skoðun

Sorglegur 17. júní

Curver Thoroddsen skrifar
Hrikalega finnst mér leiðinlegt og sorglegt að fámennur hópur hafi skemmt 17. júní fyrir okkur öllum hinum.

Þessir örfáu tugir dónalegra og hrokafullra einstaklinga hafa vanvirt á ósmekklegan hátt meirihluta Íslendinga trekk í trekk á seinustu tveimur árum. Þeir hafa miskunarlaust tekið hag fámenns hóps efnafólks fram fyrir hag meirihluta þjóðarinnar án þess að skammast sín og veigra sér ekki við að skerða hlut þeirra sem minnst mega sín ef svo ber undir.

Á stuttum tíma hefur þessi fámenni hópur þingmanna Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins aukið stéttaskiptingu og ójöfnuð í landinu svo um munar. Þau hafa síendurtekið gengið fram með valdhroka og sent þjóðinni langt nef og meira að segja reynt að hrifsa frá landsmönnum sameiginlegar auðlindir og mannréttindi. Forsetisráðherra vanvirðir þingið og gefur þjóðinni fingurinn með jöfnu millibili. Skellir sér á fótboltaleik á meðan lög eru sett á lögbundinn rétt fólks til að reyna að bæta niðurlægjandi kjör sín yfir áralangan tíma með neyðarúrræðinu sem verkfall er, hann reynir að yfirtaka viðtalsþætti, fær sér köku, mætir ekki í vinnuna þegar hitamál eru í gangi eða mætir einhversstaðar í tveimur gerðum af skóm til að verða Íslandi örugglega til skammar úti í hinum stóra heimi.

Ráðherrar ljúga upp í opið geðið á Alþingi en sjá sér ekki sóma sinn í að hætta þegar upp kemst um óheiðarleikann, skera niður sjóði sem hugsaðir eru til að byggja upp og styrkja menningu landsins á faglegan hátt en veita óumbeðna styrki með SMS-skilaboðum (þá helst til félaga í sínu kjördæmi), fella niður gjöld á stór arðbær fyrirtæki en krippla og veikja heilbrigðiskerfið leynt og ljóst svo að hægt sé að einkavæða það seinna. Allt á kostnað veikra og aðstandenda þeirra.

Fólk er reitt, sárt og hneykslað á framferði þessara fáu einstaklinga en þeir virðast ekkert vilja hlusta á rödd almennings. Þeir þráast við að halda hausnum sem fastast í rassgatinu á sér þó svo að fleiri þúsundir af góðviljuðu fólki séu að reyna að hjálpa þeim að rífa hann út.

Það er eins og hlutverkin hafi á einhvern hátt ruglast og snúist við í huga ríkisstjórnarinnar. Eins og þessir fáu valdamiklu einstaklingar upplifi sig ekki lengur sem þjóna þjóðarinnar heldur finnist þeim að fólkið í landinu sé einhverskonar sjálfsvirðingarlaus mannauðsmassi sem megi nota til að þjóna hagsmunum og hugmyndum þeirra sjálfra og annara sem tengjast þeim. Kannski má þetta skýrast að einhverju leyti á rofi milli raunveruleika og skynjunar þessara einstaklinga á ástandinu og stemmningunni sem ríkt hefur í þjóðfélaginu seinustu ár.

Málin eru komin í svo mikið óefni og hrokinn er svo gegndarlaus hjá þessum ráðamönnunum að tiltölulega stór hópur Íslendinga sá sig tilneyddan að mótmæla á sjálfan 17. júní til að reyna að vernda hag sinn og framtíð barnanna sinna í stað þess að njóta hans sem stoltir þegnar þessa áður friðsæla lands með ástvinum og fjölskyldu.

Hvenær ætlið þið ráðamenn að meðtaka skilaboðin sem fólkið er að senda ykkur? Take a hint! Það er sko í alvörunni verið að mótmæla á 17. júní.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×