Viðskipti innlent

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar gætu valdið hærri stýrivöxtum

ingvar haraldsson skrifar
Ríkisstjórnin kynnti víðtækar aðgerðir er snéru að húsnæðis- og skattamálum síðastliðinn föstudag.
Ríkisstjórnin kynnti víðtækar aðgerðir er snéru að húsnæðis- og skattamálum síðastliðinn föstudag. vísir/gva
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru samhliða undirritun kjarasamninga fyrir helgi gætu orðið þensluhvetjandi og valdið því að leiguverð til skemmri tíma hækki. Þær leggist því gegn peningastefnu Seðlabankans og geti valdið því að stýrivextir hækki meira en annars hefði orðið. Þetta segir í Markaðspunkti Greiningardeildar Arion banka.

Þessar aðgerðir bætist við umtalsverðar launahækkanir í kjarasamningum sem séu umfram svigrúm framleiðniaukningar og verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Því spáir Greiningardeildin 0,5 prósentustiga hækkun stýrivaxta í júní og frekari vaxtahækkunum síðar á þessu ári.

„Lítil umræða hefur verið um aðgerðir stjórnvalda vegna kjarasamninga, hver áhrif þeirra verða á ríkisfjármálin og hvernig þau spila saman við þá peningastefnu sem er í kortunum á næstunni,“ segir í Markaðspunktinum.

Afkoma ríkissjóðs gæti orðið 8 til 15 milljörðum lakari en áður var áætlað á næstu árum. Afgangur af rekstri ríkissjóðs verði því einungis um 2 til 3 milljarðar króna árin 2015 og 2016 að öllu óbreyttu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×