Handbolti

Cupic sagði sögu af Guðjóni Val: Tók tveggja tíma æfingu eftir útileik og rútuferð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, verður í eldlínunni með Barcelona í dag þegar liðið mætir Kielce frá Póllandi í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í handbolta.

Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD og hefst útsendingin klukkan 13.10. Allir leikirnir um helgina verða í beinni útsendingu á sportstöðvum Stöðvar 2.

Sjá einnig:Þrír samherjar Guðjóns Vals í stjörnuliði Meistaradeildarinnar

Í gær stýrði Írinn Tom O'Brannigan, aðalfréttamaður og lýsandi Meistaradeildarinnar, skemmtilegum spjallfundi með fjórum leikmönnum; einum úr hverju liði.

Þarna voru mættir Jesper Nöddesbo, Barcelona, Ivan Cupic, Kielce, Nicklas Ekberg, Kiel, og Andreas Nilson sem spilar með Veszprém.

Guðjón Valur í leik með RNL.vísir/getty
Króatíski hornamaðurinn Ivan Cupic, sem er einn sá allra besti í heimi, spilaði með Guðjóni Val veturinn 2010/2011 þegar þeir voru báðir á mála hjá Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi.

O'Brannigan heimtaði að Cupic segði sögu af Guðjóni sem hann hafði heyrt áður um hvað Íslendingurinn gerði eftir útileik gegn Friesenheim í þýsku 1. deildinni það tímabilið.

Guðjón Valur spilaði ekki nema 5-10 mínútur í leiknum, en eins og stuðningsmenn íslenska landsliðsins vita vill Guðjón helst ekki missa af einni einustu mínútu.

Sjá einnig:Guðjón Valur: Það hvílir engin bölvun á mér

„Við komum heim á æfingasvæðið okkar í Kroneau á miðnætti og þá hringdi hann í konuna sína og bað hana um að sækja sig ekki strax því hann ætlaði að taka smá æfingu,“ sagði Cupic.

„Hann vildi taka spretti og kíkja svo aðeins í lyftingarsalinn,“ bætti Króatinn við.

„Ég spurði hvað hann væri að pæla, klukkan var orðin tólf. Ég sagði honum að fara heim og vera með börnunum sínum.“

Guðjón Valur var ekki alveg á þeim buxunum þessa nótina og svaraði: „Nei, ég ætla að taka æfingu.“

Söguna má sjá í spilaranum hér að ofan. Ef hún byrjar ekki á réttum stað má spóla á 12:25.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×