Viðskipti innlent

Hreiðar Már, Magnús og Sigurður ekki mættir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Magnús Guðmundsson, Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson.
Magnús Guðmundsson, Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson. Vísir
Aðalmeðferð í máli sérstaks saksóknara gegn níu fyrrverandi starfsmönnum og stjórnendum Kaupþings hófst í Sal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Athygli vakti að Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson voru ekki mættir þegar málsmeðferðin hófst í morgun.

Þremenningarnir eru á meðal þeirra níu sem sæta ákæru sérstaks saksóknara fyrir umfangsmikla markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 8. október 2008.

Ekki liggur fyrir hvers vegna Hreiðar Már, Magnús og Sigurður eru ekki mættir. Fordæmi eru fyrir því að sakborningar sitji ekki alla aðalmeðferðina, sem reiknað er með að standi til 22. maí, og geta aðeins mætt til að gefa sjálfir skýrslu samkvæmt dagskrá. Hins vegar er mun algengara en ekki að sakborningar sitji alla aðalmeðferðina.

Þremenningarnir hlutu dóma í Al-Thani málinu á dögunum og hafa Hreiðar Már og Sigurður þegar hafið afplánun á Kvíabryggju. Á þriðju klukkustund tekur að keyra úr höfuðborginni á Kvíabryggju vestur á Snæfellsnesi. Hins vegar er reiknað með því að aðalmeðferðin taki rúmar fjórar viku og ekki ákjósanlegt að keyra daglega á milli. Af þeim sökum munu Hreiðar Már og Sigurður dvelja í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg á meðan aðalmeðferðin fer fram.

Af þeim níu sem eru ákærðir í málinu eru mætt þau Pétur Kristinn Guðmarssonar, Birnir Snær Björnsson, Ingólfur Helgason og Einar Pálmi Sigmundsson. Reiknað er með því að dagurinn í dag fari í skýrslutöku yfir Pétri Kristni.

Eftirfarandi eru ákærðir í málinu:

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans

Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi

Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta í bankanum

Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg

Bjarki H. Diego,  fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Kaupþings

Birnir Sær Björnsson, fyrrverandi verðbréfasali eigin viðskipta í Kaupþingi

Pétur Kristinn Guðmarsson, fyrrverandi verðbréfasali eigin viðskipta í Kaupþingi

Björk Þórarinsdóttir sem sat í lánanefnd Kaupþings og starfaði á fyrirtækjasviði


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×