Enski boltinn

Pardew leitaði sér aðstoðar hjá íþróttasálfræðingi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pardew hefur oft verið til vandræða á hliðarlínunni.
Pardew hefur oft verið til vandræða á hliðarlínunni. vísir/getty
Alan Pardew, knattspyrnustjóri Crystal Palace, greindi frá því í samtali við BBC að hann hafi leitað sér aðstoðar hjá íþróttasálfræðingi vegna hegðunnar sinnar á hliðarlínunni.

Pardew hefur átt það til að missa stjórn á skapi sínu en frægt er þegar hann skallaði David Meyler í leik Hull og Newcastle á síðasta tímabili. Pardew fékk sjö leikja bann fyrir og 60.000 punda sekt.

„Ég verð að hafa stjórn á sjálfum mér og vera yfirvegaður allar 90 mínúturnar,“ sagði Pardew sem tók við Crystal Palace í byrjun árs eftir að hafa stýrt Newcastle frá árinu 2010.

Sálfræðingurinn sem Pardew leitaði til heitir Jeremy Snape og er fyrrverandi landsliðsmaður Englands í krikket. Pardew segir að Snape hafi hjálpað sér mikið.

Jeremy Snape hefur unnið með mörgum íþróttamönnum á undanförnum árum.vísir/getty
„Það er mér eðlislægt að vera æstur á hliðarlínunni. Ég verð að læra af reynslunni og sýna yfirvegun.

„Jeremy hefur hjálpað mér að einbeita mér að því sem ég hef stjórn á og það virkar vel fyrir mig. Þetta snerist ekki um að róa mig niður, heldur að finna það sem æsti mig upp. Í öll skiptin sem ég lenti í vandræðum voru það viðbrögð við því þegar mér fannst við vera beittir órættlæti.

„Núna veit hvernig á að bregðast við í þessum aðstæðum og hafa hemil á mér,“ sagði Pardew sem hefur gert góða hluti með Palace á árinu en liðið er í 12. sæti úrvalsdeildarinnar með 36 stig.

Crystal Palace tekur á móti Englandsmeisturum Manchester City í lokaleik 31. umferðar í kvöld klukkan 19:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×