Enski boltinn

Wenger: Reyni að öskra aldrei á leikmenn eftir tapleiki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger langaði vafalítið að taka hressilega ræðu eftir fyrri leikinn í Meistaradeildinni gegn Monaco.
Arsene Wenger langaði vafalítið að taka hressilega ræðu eftir fyrri leikinn í Meistaradeildinni gegn Monaco. vísir/getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segist ekki öskra á leikmenn sína eftir tapleiki, en viðurkennir að stundum fari hann yfir strikið.

Arsenal er í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar og líklegt til að komast í Meistaradeildina enn eitt árið, en því var þó skellt í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar í síðustu viku.

Wenger er í viðtali í tímariti Arsenal þar sem hann er spurður hvernig hann fer að því að hvetja sína menn til dáða. Frakkinn segist ekki ganga mikið á sína menn og trúir ekki á að taka einn leikmann fyrir og gagnrýna hann.

„Ég öskra ekki á leikmennina eftir leik því það er hægt að valda miklum skaða eftir leik. Ef ég að vera heiðarlegur samt er stundum erfitt að halda aftur af sér,“ segir Wenger við tímarit Arsenal.

„Stundum hef ég þó misst stjórn á skapi mínu og farið yfir strikið. Oftast reyni ég þó að hemja mig því ef ég verð alveg rauður í andlitinu veit ég að skaðinn verður bara meiri.“

„Stundum er hægt að kenna einhverjum ákveðnum manni um að liðið fékk á sig mark en þegar maður skoðar svo leikinn aftur kemur í ljós að þetta var ekkert honum að kenna,“ segir Arsene Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×