Heilsa

Nei ég kann ekki að hjóla

Steinunn Anna Sigurjónsdóttir sálfræðingur skrifar
Vísir/Getty
Dóttir mín var lengi að læra að hjóla.  Sumarið fyrir þriðja bekk kom hún niðurbrotin heim eftir að bekkurinn hafði farið saman í hjólaferð og hún var sú eina með hjálpardekk á hjólinu.  Einbeittar í fasi fórum við mæðgur út til þess að æfa þetta saman.  Það gekk ekki vel.  Eftir nokkrar byltur sagði dóttir mín döpur í bragði að ég mætti selja hjólið hennar því hún myndi greinilega aldrei læra að hjóla. Svo við seldum hjólið hennar.  Það var ekkert annað í stöðunni, þar sem allir vita að hafir þú ekki náð tökum á að hjóla átta ára gömul munt þú aldrei getað lært það. Sagði enginn, aldrei!

Seinna um kvöldið fór hún ein út með litlu systur og náði fyrstu ferðinni og svo kom þetta bara á næstu vikum. Þessi saga minnir okkur á nokkur mikilvæg atriði um nám.  Við erum misfljót að læra og ástæður þess eru bæði líffræðilegar og umhverfistengdar.

En það sem skiptir meira máli en námshraði er sú staðreynd að þegar við náum einhverju þá erum búin að ná því. Sum okkar læra hægar en aðrir vegna þess að heilinn í okkur myndar nýjar tengingar hægar. Við erum einnig með mismikinn grunn fyrirfam í því sem við viljum læra heiman frá sem tengist áhugamálum foreldra, umræðum við matarborðið og okkar eigin áhugasviði.

Dóttir mín var t.d. svo óheppin að foreldrar hennar eiga hvorugt hjól og gerðu fáar tilraunir til að kenna henni að hjóla, auk þess sem hún bað sjaldan um það sjálf að fara út að æfa sig. Hún fékk því fá tækifæri til endurtekninga heima við og glataðar fyrirmyndir þegar kemur að því að læra að hjóla. 

En hún er með góðan grunn í því að vita allt um ofurhetjur og ná reglum í borðspilum hratt og örugglega.

Vísir/Getty
Námskvíði tengist oft óraunhæfum væntingum um hversu hratt við eigum að geta náð tökum á efninuMargir þættir spila inn í námshraða okkar. En þegar við skiljum ekki eitthvað eða náum ekki góðum tökum á einhverju jafn hratt og næsti maður höfum tilhneigingu til þess að skýra það með skorti á greind eða hæfileikum. ,,Ég skil ekki stærðfræði, ég get ekki lært að prjóna, ég náði aldrei tökum á lestri”.

Við fyllumst kvíða og vanmætti við tilhugsunina um að reyna áfram. Þá gefumst við ef til vill of fljótt upp og styrkjum um leið þá hugmynd að við séum heimsk eða ófær um að læra. Hugsaðu um það sem þú kannt ekki eða ert léleg/ur í?  Er það vegna þess að það vantar eitthvað í þig eða vegna skorts á þjálfun?  Ef það er skortur á þjálfun, hvers vegna? Gekk þér illa að ná þessu fyrstu skiptin? Fannst þér aðrir sneggri að ná þessu? Vantaði stuðning í umhverfi þínu?

Við getum litlu breytt um hve hratt heilinn okkar myndar nýjar tengingar eða hvaða bakgrunn við höfum heiman frá.  En góðu fréttirnar eru að æfingin skapar meistarann hvort sem við lærum hægt eða hratt (já ég veit að klisjur er óþolandi). Að auki má oft bæta námshraða með námstækni. Til dæmis er það að sitja og lesa texta yfir í hljóði ein slakasta leiðin til þess að læra eitthvað. Því merkingarbærari sem úrvinnsla á námsefni er því betur lærum við, t.d. með því að útskýra námsefnið fyrir foreldri eða maka.  Einnig má oft skoða ytri þætti svo sem tölvunotkun, skipulag, væntingar o.fl.En það sem ég vil að þú lesandi góður takir með þér eftir þennan lestur er fyrst og fremst það að þó þú þurfir að hafa meira fyrir því að læra nýja hluti þá er það ekki merki um heimsku eða það að þú getir ekki lært eitthvað.Næst þegar þú átt erfitt með að ná tökum á einhverju prófaðu að hugsa um þetta sem skort á æfingu en ekki greind eða hæfileikum. Það er enginn munur á þekkingu sem vinnst hratt eða hægt. Ef þú ert ekki sammála mér prófaðu þá eftirfarandi æfingu: Horfðu á hóp krakka úti að hjóla og prófaðu að giska á hvenær hvert þeirra hafi náð tökum á að hjóla.

Steinunn er sálfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni


Fleiri fréttir

Sjá meira


×