Viðskipti innlent

Skortur á gögnum um millifærsluna sætir furðu að mati héraðsdóms

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hannes Smárason var í dag sýknaður af ákæru um fjárdrátt.
Hannes Smárason var í dag sýknaður af ákæru um fjárdrátt. Vísir/GVA
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sérstaks saksóknara gegn Hannesi Smárasyni segir að það sæti furðu að engin gögn séu til frá Kaupþingi í Lúxemborg varðandi tæplega 3 milljarða króna millifærslu sem á að hafa farið af reikningi FL Group til Fons þann 25. apríl 2005.

Það er í raun þetta sem ræður úrslitum um sýknu Hannesar af ákæru um fjárdrátt en ekki framburður hans eða vitna og skýringar þeirra fyrir dómi sem voru ekki allar trúverðugar, að því er segir í dómnum.

Að auki kemur fram að einstaklingar sem störfuðu fyrir Kaupþing í Lúxemborg, og báru vitni fyrir dómi, gátu í engu upplýst hvers vegna engin gögn séu til um millifærsluna.

„Þá benda sum gögn frá bankanum, eins og svör endurskoðanda FL Group [..] til þess, að engin millifærsla til Fons hafi átt sér stað og féð á bankareikningi nr. 401301 hafi allan tímann verið FL Group aðgengilegt. Allt þetta sætir nokkurri furðu og engar fullnægjandi skýringar hafa komið fram um þetta. Ákæruvaldið verður að bera hallann vegna algjörs skort á gögnum frá KBL um millifærsluna til Fons auk þess sem enginn vitnisburður skýrir hana [...].“

Dómurinn telur því með öllu ósannað að Hannes hafi látið millifæra 2,87 milljarða af reikningi FL Group í apríl 2005. Hann var því sýknaður af ákærunni.

„Við gerum fastlega ráð fyrir því að leggja til við ríkissaksóknara að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar,“ segir Finnur Vilhjálmsson, saksóknari sem sótti málið fyrir hönd sérstaks saksóknara, aðspurður um viðbrögð sín við dómnum. Farið var fram á allt að þriggja ára fangelsi yfir Hannesi.

Allur málskostnaður dæmist á ríkissjóð, alls um 13,5 milljónir króna. Þar af fara tæpar 10 milljónir í málsvarnarlaun Gísla Guðna Hall, verjanda Hannesar Smárasonar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×