Körfubolti

Dóttir fyrrum NBA-leikmanns spilar með kvennaliði Vals

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lee Mayberry í leik á móti Brian Shaw í Miami Heat.
Lee Mayberry í leik á móti Brian Shaw í Miami Heat. Vísir/Getty

Bandaríski bakvörðurinn Taleya Mayberry mun spila með liði Vals í seinni hluta Dominos-deild kvenna í körfubolta en Valsmenn hafa gert samning við þessa 23 ára gömlu stelpu sem útskrifaðist frá Tulsa-háskólanum.

Taleya Mayberry kemur í staðinn fyrir Joannu Harden sem yfirgaf Val þegar þrír leikir voru eftir af fyrri umferðinni en Harden var þriðji stigahæsti leikmaður fyrri umferðarinnar með 26,3 stig að meðaltali í leik.

Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, staðfesti komu Taleyu Mayberry við Vísi og segir að verið sé að vinna í því að fá leikheimild fyrir hana fyrir fyrsta leikinn á nýju ári sem verður gegn KR 7. janúar næstkomandi.  

Taleya Mayberry á frægan körfuboltapabba en faðir hennar Lee Mayberry spilaði 496 leiki í NBA-deildinni frá 1992 til 1999 og var með 5,1 stig og 3,6 stoðsendingar að meðaltali í þeim. Lee Mayberry spilaði fyrir Milwaukee Bucks (1992–1996) og Vancouver Grizzlies (1996-1999). Hann vann brons með bandaríska landsliðinu á HM í Argentínu 1990.

Taleya Mayberry átti flottan háskólaferil með Tulsa en hún endaði sem annar stigahæsti leikmaður skólans og komst líka upp í annað sætið í stoðsendingum og þá hafa aðeins tveir leikmenn Tulsa-skólaliðsins hafa stolið fleiri boltum.

Mayberry var með 15,3 stig, 3,5 fráköst, 3,3 stoðsendingar og 2,4 stolna bolta að meðaltali í 114 leikjum fyrir skólann.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.