„Þetta er alveg frábært, ég er ekki að trúa þessu! Tónleikar með Ásgeir Trausta í heimalandi hans, þetta var eitt af því sem ég ætlaði mér að gera í lífinu,“ segir hin franska Eva Lucas.
Hún datt svo sannarlega í lukkupottinn þegar hún var dregin út í leik á Facebook-síðu Ásgeirs. Þar höfðu 14.200 útlendingar skráð sig í leikinn, þar sem verðlaunin voru flug til Íslands, gisting á hóteli og miðar fyrir tvo á tónleika Ásgeirs í Hörpu 16. júní.
Eva var í skýjunum þegar umboðsmaður Ásgeirs tilkynnti henni gleðitíðindin. Þetta verður í fyrsta sinn sem hún heimsækir landið, en hún er búsett í Anglet í Frakklandi.
„Ég hef aldrei komið til Íslands áður og heldur aldrei séð Ásgeir á tónleikum, svo þetta verður í fyrsta sinn sem ég geri hvorutveggja.“
Eva er mikill aðdáandi Ásgeirs og ætlar að taka bestu vinkonu sína með á tónleikana, sem einmitt kynnti hana fyrir tónlist Ásgeirs.
Þær vinkonurnar fá svo sannarlega íslenska tónlistarveislu, þar sem ljóst er að hljómsveitin Vök mun hita upp fyrir tónleikana, en sveitin hefur slegið í gegn síðan hún sigraði Músíktilraunir árið 2013.
