Viðskipti innlent

Íslensk páskaegg vinsæl á Norðurlöndunum

ingvar haraldsson skrifar
Hér má sjá páskaegg frá Nóa Síríusi sem eru til sölu í búðinni Meny í Nesttun í Bergen.
Hér má sjá páskaegg frá Nóa Síríusi sem eru til sölu í búðinni Meny í Nesttun í Bergen. mynd/jóhanna gísladóttir
„Það eru svæði bæði í Danmörku og Svíþjóð þar sem Íslendingar eru en eggin ná ekki til og þá fáum við alveg að heyra það,“ segir Þórhallur Ágústsson, viðskiptastjóri útflutnings hjá Nóa Síríus.

„Þetta er mikið eins og maltið og appelsínið. Þetta er vara þess tíðaranda og fólk vill mjög gjarnan fá hana,“ bætir Þórhallur við.

Nói Síríus flytur á hverju ári fjölda páskaeggja til Norðurlandanna. Um miðjan febrúar sendi fyrirtækið milli fimm og sex þúsund páskaegg til Norðurlandanna, sem dugar til að fylla einn fjörutíu feta gám og ríflega það að sögn Þórhalls.

Þórhallur segir eftirspurnina eftir páskaeggjunum mikla. „Hún er líklega í beinu samhengi við fólksfjölda Íslendinga á ákveðnum svæðum,“ segir hann.



Nói Síríus stefnir á vöxt erlendis


Þórhallur segir fyrirtækið vera í sókn erlendis á næstunni en um tíu prósent af sölu Nóa Síríus er í  útlöndum. Fyrirtækið selur mikið til Whole Foods verslunarkeðjunnar í Bandaríkjunum að sögn Þórhalls. „Þar erum við að breikka vöruúrvalið og stækka dreifingarnetið.“

Fyrirtækið gerði einnig nýlega samninga við NorgesGruppen, stærsta dreifingaraðila á dagvöru í Noregi. „Við sjáum fram á mikla söluaukningu í Noregi á næstu árum,“ segir Þórhallur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×