Sport

Hinn serbneski Shearer?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mitrovic vill feta í fótspor Shearer.
Mitrovic vill feta í fótspor Shearer. vísir/getty
Newcastle United hefur ekki keypt marga leikmenn í sumar en þeir sem eru komnir gætu hæglega slegið í gegn. Einn þeirra er serbneski framherjinn Aleksandar Mitrovic sem hefur farið mikinn með Anderlecht í Belgíu undanfarin tvö tímabil.

Mitrovic er stór og sterkur, harður af sér, öflugur í loftinu, góður í teignum, mjög markheppinn og er aðeins tvítugur.

Komist hann í betra form og láti ekki skapið hlaupa með sig í gönur getur hann orðið frábær fyrir Newcastle sem skoraði aðeins 40 mörk í 38 deildarleikjum í fyrra.

Mitrovic er uppalinn hjá Partizan Belgrad og braut sér leið inn í aðallið félagsins tímabilið 2012-13. Hann skoraði fimmtán mörk í 36 leikjum á sínu fyrsta tímabili með Partizan og í upphafi þess næsta var Mitrovic seldur til Anderlecht þar sem hann var gríðarlega öflugur.

Serbinn skoraði alls 44 mörk í 90 leikjum fyrir Anderlecht og var markahæsti leikmaður belgísku deildarinnar í fyrra með 20 mörk. Þá hefur Mitrovic leikið 13 landsleiki fyrir Serbíu og var lykilmaður í U-19 ára landsliðinu sem varð Evrópumeistari 2013.

Mitrovic dreymir um að feta í fótspor Alans Shearer hjá Newcastle og þótt hann eigi enn óralangt í land með að komast á sama stall og sú goðsögn þá hefur Serbinn allavega hæfileikana sem til þarf til þess að blómstra í ensku úrvalsdeildinni.- iþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×