Viðskipti innlent

Íslandsbanki breytir lukkudýrum vegna ábendingar Hildar Lilliendahl

Sæunn Gísladóttir skrifar
Lýsingum á lukkudýrunum, vinum Georgs, mun verða breytt til að sporna gegn kynjuðum staðalímyndum.
Lýsingum á lukkudýrunum, vinum Georgs, mun verða breytt til að sporna gegn kynjuðum staðalímyndum. Vísir/vilhelm/Stefán

Íslandsbanki hefur ákveðið að breyta lýsingum á lukkudýrum sínum, svokölluðum vinum Georgs, eftir ábendingu á Twitter frá Hildi Lilliendahl.

„Þetta er úrelt lýsing á þessum vinum Georgs. Við höfum verið að skoða þetta sjálf og þetta er góð og réttmæt ábending til okkar sem við erum þakklát fyrir. Við ætlum að breyta lýsingunni,“ segir Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka í samtali við Vísi.

Lýsingin á vinum Georgs verður tekin til endurskoðunar.

Vinir Georgs eru Villi, Nína, Inga og Kristófer. Á meðan Villi er mikið að pæla og spekúlera og Kristófer er að segja brandara eru Nína og Inga holdgervingar staðalímynda.

Inga er bleikur nashyrningur og er samkvæmt lýsingu „algjör skvísa og elskar allt sem er bleikt.“

Nína er kanína og er óþolandi af því að hún gerir ekki annað en að tala. „Eina leiðin til að fá Nínu til að hætta að tala er að klappa henni og strjúka henni um eyrun.“

Íslandsbanki tísti til Hildar að bankinn væri sammála Hildi að það yrði að breyta þessu og Hildur tísti til baka að þetta væri vel gert hjá bankanum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×