Skoðun

Þak yfir höfuðið – saga um samstarf

Gísli B. Björnsson skrifar
Árið 1962, þá 24 ára, kom undirritaður heim frá námi ásamt konu og barni, næstum peningalaus. Hópur nokkurra góðra félaga hófst þá handa um undirbúning þess að fá lóð og hefja undirbúning að byggingu íbúðablokkar. Við gengum í Byggingasamvinnufélagið Framtak, mynduðum þar deild sem bar ábyrgð á sínum gerðum.

Árið 1963, eftir nokkra vinnu og nokkurn tíma, fékkst lóð frá Reykjavíkurborg fyrir fjögurra hæða sextán íbúða blokk við Fellsmúla. Sextán fjölskyldur hófust handa. Í þessum hópi voru einstaklingar með sérhæfða menntun sem nýttist vel til þessara byggingaframkvæmda. Arkitekt, rafvirki og trésmiður en einnig aðrir eins og teiknari, kennari, sjómenn og fagmenn á allt öðrum sviðum. Allt var þetta fólk sem gat notað krafta sína til margvíslegrar vinnu, allt verk sem vinna þarf á hinum ýmsu stigum byggingaframkvæmda.

Til þeirra verkefna sem við réðum ekki við varð að kaupa vinnu frá fagmönnum. Verkfræðingar, byggingameistari o.fl. komu þar við sögu. Undirbúningur framkvæmda tók sinn tíma og það fóru fram umræður eins og um stærðir og gæði íbúða. Niðurstaðan var bygging þriggja og fjögurra herbergja íbúða ásamt kjallara sem yrði allur sameign.

Greiðslugeta hópsins og raunverulegur kostnaður réð för

Kjörin var stjórn og formaður sem bar ábyrgð á framkvæmdum, fjárframlögum og byggingarhraða. Áætluð fjárhagsleg geta hópsins sem heildar lá þar að baki. Allt var þetta byggt á ákvörðunum á félagsfundum.

Í upphafi skráðu fjölskyldur sig fyrir ákveðinni stærð íbúða. Hlutfallslegur kostnaður hvers og eins byggðist á stærðarhlutföllum hverrar íbúðar í eigninni.

Um leið og byggingaframkvæmdir hófust urðu til verkefni fyrir margar vinnandi hendur fagmanna sem og almennra félaga.

Fjölskyldumæður sem báru þungann af börnum vinnumannanna lögðu sitt af mörkum; þær sáu um fatnað, fæði og aðra umhyggju. Framkvæmdir gengu nokkuð markvisst fyrir sig en greiðslugeta hópsins og raunverulegur kostnaður réð þar för.

Álagið á flesta félaga var mikið, því margir unnu langan og strangan vinnudag og svo einnig um kvöld og helgar. Vinna fagmanna var samkvæmt samningum og vinnutími félaga var vottaður af samstarfsmanni eða verkstjóra á vinnustað. Stjórn félagsins var virk og bar mikla ábyrgð. Framkvæmdir, allt frá fyrstu skóflustungu þar til flutt var inn, stóðu yfir í tæp þrjú ár.

Þegar allt var að verða tilbúið var efnt til dráttar um hvar hver fjölskylda lenti í húsinu og það virtust flestir ánægðir með sinn hlut.

Ég fékk einn félagann til að rifja þennan tíma upp: „Ég var jafn blankur og öll hin, en ég átti bíl sem ég seldi og átti þar með fyrir fyrstu innborgun, sem gæti hafa verið á bilinu 30 til 50 þúsund gamlar krónur. Þetta voru að minnsta kosti fjögurra mánaða laun. Síðan tóku við fastar mánaðargreiðslur, 10 þúsund krónur. Þessa greiðslu gat maður svo lækkað með því að leggja fram sína vinnu – og það gerði ég óspart. Ég hjólaði inn í Fellsmúla að loknum vinnudegi og vann þar í þrjá til fjóra tíma eftir því sem þurfti hverju sinni. Þetta var mestanpart hreinsun á timbri, mokstur og önnur skítavinna.“

Á þessum tíma voru nokkrir byggingameistarar og byggingafélög að byggja álíka blokkir í hverfinu kringum okkur þar sem til staðar var þekking, reynsla og fjármagn. Stuðningur okkar kom frá lífeyrissjóðum ásamt Húsnæðisstofnun. Bankar vildu lítið af okkur vita. Athygli okkar vakti að þrátt fyrir sterkari stöðu þessara framkvæmdaaðila voru þeir að selja sínar íbúðir á hærra verði en raunkostnaður var við okkar hús. Við vissum á hverjum tíma hvað við höfðum lagt fram í formi vinnu og peninga. Lágmark 20-30% hærra verð urðu þeirra kaupendur að borga og að auki var sameignin verulega minni, því flestir þeirra voru að selja íbúðir í kjöllurum húsanna. Fólk í íbúðarleit heimsótti okkur til að forvitnast um raunkostnað og þaðan höfðum við upplýsingar um verðlagningu. Einkaframtakið vildi fá sinn hagnað.

Hvar eru byggingarsamvinnufélög ungs fólks?

Samfélag okkar varði í mörg ár og hjá mörgum var þetta góður áfangi til frekari fjárfestinga. Raunkostnaður og nýting okkar á vinnuframlagi gaf mörgum gott veganesti.

Ég furða mig á því hvers vegna þetta samvinnubyggingarform hefur ekki haldist. Hvar er í dag ungt fólk sem nýtir krafta sína og þekkingu til þess að eignast með þessu móti þak yfir höfuðið á réttu verði í stað þess að borga óeðlilegt yfirverð?




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×