Innlent

Borgin leyfir ljósastaur á 17. hæð

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Myndin er samsett. Ljósastaurnum hefur ekki enn verið komið fyrir.
Myndin er samsett. Ljósastaurnum hefur ekki enn verið komið fyrir. Vísir/Valli
Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa heimilað uppsetningu tæplega fimm metra ljósastaurs á svölum íbúðar á sautjándu hæð við Vatnsstíg 18.

Ljósastaurinn verður hluti af listaverki eftir Kristin E. Hrafnsson og er leyfi borgarinnar tímabundið fram til 15. september á næsta ári. Með umsókn eiganda íbúðarinnar, Sigurðar Gísla Pálmasonar, fylgdi samþykkt húsfélagsins.

„Staurinn mun sjást en sennilega ekki vera áberandi þar sem hann er á sautjándu hæð og fáir sem hann getur angrað. Að öðru leyti mun listaverkið ekki sjást á svölunum,“ segir í bókun stjórnarfundar húsfélagsins.

Kveðst stjórnin hafa rætt nokkuð um þessi áform.

„Enginn áhugi er á að menn fari að spila einleik á svölum sínum,“ er áréttað í bókuninni og vitnað í húsreglurnar þar sem fram kemur meðal annars að bannað sé að hengja upp þvott á svölum og berja þar gólfteppi. mottur og dregla. Ekkert megi vera á svölunum sem valdið geti óþægindum og ónæði eða spillt útliti og heildarmynd hússins.

„Ákveðið var að gera ekki athugasemdir við þessi áform enda fengum við staðfest með bréfi að íbúi á átjándu hæð, sem sennilega verður hvað mest var við listaverkið gerði ekki athugasemd,“ segir stjórnin sem gefur sitt leyfi til bráðabirgða í eitt ár. Að þeim tíma loknum verði skoðað „hvort einhver óæskileg áhrif hafi komið í ljós“.

Er haft var samband við Kristin E. Hrafnsson kvað listamaðurinn ótímabært að tjá sig um listaverkið fyrirhugaða þar sem ekki væri komin á það endanleg mynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×