Það virtist ekki eins og að stressið sem fylgir því öllu jafna að vera nýliði í Ryder-bikarnum hafi náð til Bandaríkjamannanna Jordan Spieth og Patrick Reed en þeir gerðu sér lítið fyrir og völtuðu yfir Stephen Gallacher og Ian Poulter í fjórboltanum í morgun.
Spieth og Reed léku á alls oddi en leikurinn kláraðist á 14 holu, á sama stað og Henrik Stenson og Justin Rose lögðu Bubba Watson og Webb Simpson til þess að tryggja Evrópu sitt fyrsta stig í Rydernum í ár.
„Við þögguðum niður í þeim, það var planið,“ sagði Spieth við fréttamenn eftir hringinn. „Við vissum að það myndi vera mikil stemning í kring um Gallacher og Poulter enda eru þeir gríðarlega vinsælir hérna á Gleneagles. Okkur tókst að byrja vel og þeir náðu sér ekki á strik eftir það.“
Patrick Reed var einnig mjög sáttur með sinn fyrsta leik í Rydernum. „Þetta var alger draumabyrjun, að spila í Ryder-bikarnum er allt sem ég bjóst við og meira en það.“
