Erlent

Leiðtogar G7-ríkjanna lýsa yfir stuðningi við úkraínsk stjórnvöld

Randver Kári Randversson skrifar
David Cameron og Barack Obama á blaðamannafundi í Brussel í dag.
David Cameron og Barack Obama á blaðamannafundi í Brussel í dag. Vísir/AP
Leiðtogar G7-ríkjanna lýstu í dag yfir afdráttarlausum stuðningi við stjórnvöld í Úkraínu í deilunni við aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins. BBC greinir frá þessu.

Á fundi G7-ríkjanna í Brussel í dag, hvatti Barack Obama, Bandaríkjaforseti, til að grípa tækifærið sem nú væri til staðar til að koma til móts við stjórnvöld í Kænugarði.

Að sama skapi lögðu Evrópusambandsríkin áherslu á lagalegan rétt Úkraínumanna til að koma á lögum og reglu í austurhluta landsins. Þeir hvöttu einnig Rússa til að láta af afskiptum sínum af málefnum Úkraínu og grípa þess í stað til aðgerða til að draga úr spennu á svæðinu.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, beindi þeim kröfum til Pútíns Rússlandsforseta að Rússar viðurkenndu Petro Porosjenko sem réttkjörinn forseta Úkraínu og þeir hætti vopnasölu til aðskilnaðarsinna í Úkraínu.

Pútín mun funda með leiðtogum evrópskum leiðtogum í París á morgun.

Fundur G7-ríkjanna nú er sá fyrsti sem fram fer frá því Rússlandi var vísað úr hópnum vegna innlimunar Krímskaga í Rússland í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×