Skoðun

50 milljarða smugan

Sævar Finnbogason skrifar
Á dögunum var Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, inntur eftir því hvaða rök væru fyrir smuguákvæði (e. Loophole) um 50 milljarða skuldafrímark vegna bankaskatts, sem virtist vera klæðskerasaumað að þörfum MP banka. Frosti svaraði á þá leið að færa mætti rök fyrir þessu þar sem MP banki hefði ekki valdið ríkissjóði tjóni í hruninu. Síðar sagðist Frosti reyndar hafa hlaupið á sig og sagði að færa mætti rök fyrir að ríkissjóður hefði orðið fyrir tjóni vegna MP banka og hann hefði frekar átt að segja að ríkissjóður hefði líklega orðið fyrir „minna tjóni“ vegna MP banka. Enn síðar kom í ljós að hann hafði ekki munað eftir að hann lagði sjálfur til hugmyndina að upphæðinni, 50 milljörðum.

Þessi röksemdafærsla kemur ekki á óvart og er kannski í takt við stemninguna í samfélaginu, en hún er engu síður bæði villandi og stenst ekki skoðun, jafnvel þótt MP banki hefði ekki valdið ríkinu tjóni eða bara „minna tjóni“. Hún er til þess fallin að villa fólki sýn á aðdraganda efnahagshrunsins haustið 2008 og uppgjörið við það.

Staðreyndin er sú, eins og alþjóð veit, að allir stóru bankarnir þrír fóru í þrot í hruninu. Við það fóru þeir í slitameðferð og eigendur þeirra í dag erum við skattgreiðendur og kröfuhafar gömlu bankanna. Kröfuhafarnir eru til að mynda þeir sem lánuðu bönkunum eða keyptu þær kröfur á eftirmarkaði, betur þekktir sem hrægammar, Bretar og Hollendingar vegna Icesave-innistæðnanna og lífeyrissjóðir. Því er ljóst að í dag eru aðrir eigendur að þessum bönkum en þeir sem ráku þá þegar þeir fóru í þrot.

Hversu illa sem okkur kann að vera við hina svokölluðu hrægamma er ekki með nokkru móti hægt að kenna þeim um hrunið. Að sama skapi væri undarlegt að kenna þeim sem lánuðu gömlu bönkunum peninga eða lögðu þar inn sparifé sitt um að bankarnir fóru á hausinn eða tjón ríkissjóðs. Það væri líklega svipað og að kenna ísframleiðandanum um það að ísbúðin fór á hausinn því hann hafi hætt að selja búðinni ísblönduna út á krít þegar ljóst var að ísbúðin myndi ekki geta greitt eldri reikninga sína.

Rannsóknarskýrsla Alþingis sýnir að einkum tvennt skýrir umfang þess tjóns sem ríkissjóður varð fyrir við fall bankanna, athafnaleysi stjórnvalda og eftirlitsstofnana og áhættusækni og athafnir eigenda og stjórnenda föllnu bankanna. Því er það bæði villandi og skaðlegt að stilla málum upp með þessum hætti. Það er líka full ástæða til að spyrja sig hvers vegna þetta vakti ekki sterkari viðbrögð. Er það vegna þess að stór hluti kröfuhafanna er erlendur eða vanþekking á því hvernig staðið var að umgjörð þrotabúa bankanna?

Ég tek skýrt fram að þótt bankarnir séu ekki lengur í eigu þeirra sömu og fyrir hrun, er ég ekki að segja að það séu rök fyrir því að hætta við bankaskattinn. Til dæmis má má færa rök fyrir honum með því einu að vísa til stöðu ríkissjóðs og hann sé þá lagður á með almennum og sanngjörnum hætti. Tjón ríkissjóðs vegna falls bankakerfisins er í það minnsta ekki rök fyrir því að veita klæðskerasaumaða smugu inn í bankaskattinn utan um hagsmuni eins banka sem er bæði í samkeppni við og í sambærilegum rekstri og aðrir bankar.

Það er varla til marks um einhvern lærdóm af hruninu að svo virðist sem enginn, þar með talið formaðurinn, muni hvort hugmyndin að 50 milljarða smugunni hafi verið tilkomin að frumkvæði fjármálaráðuneytisins að ósk efnahags- og viðskiptanefndar eða nefndarmanns. En þó er ljóst að hún er tilkomin vegna þrýstings og athugasemda frá hagsmunaaðilum. Það sem meira er, allir nefndarmenn og allir þingmenn greiddu málinu atkvæði sitt, utan tveggja Pírata sem sátu hjá og Vilhjálms Bjarnasonar sem greiddi einn atkvæði gegn því. Nú þegar fjölmiðlar benda á tengsl milli stjórnenda MP banka og forystumanna ríkisstjórnarinnar er beðið um fund með ráðuneytinu til að spyrja að því sem hefði átt að spyrja í upphafi, hvers vegna 50 milljarðar?

Hrunið leiddi í ljós að fámennið hér skapar margan vanda. Það reynir mjög á fagmennsku og hugrekki þeirra sem starfa í stjórnsýslunni, á Alþingi eða við eftirlit með viðskiptalífinu þegar helstu gerendur beggja vegna borðsins eru allir skólabræður í „sömu stúdentapólitík“, eins og fyrrverandi forstjóri FME orðaði það fyrir rannsóknarnefnd Alþingis, eða tengdir fjölskylduböndum.

Á meðan ekki koma fram góð og gild rök byggð á almannahagsmunum fyrir því hvers vegna talan 50 milljarðar varð fyrir valinu, eða því að hafa yfirleitt einhvers konar skuldafrímark á bankaskattinum, er eðlilegt að fólk spyrji hvort gott aðgengi að ráðamönnum hafi valdið því að þetta var lagt til. Enda um mikla peninga að tefla. Það skýrir samt ekki hvers vegna nær allir þingmenn féllust á smuguna. Þingmenn ættu nú að nota tækifærið til að velta því vandlega fyrir sér hvort þeir hafi verið nægjanlega gagnrýnir í umfjöllun sinni um þetta mál og hvað þeir geti á því lært.




Skoðun

Sjá meira


×