Lífið

Opnaði netverslun sem selur barnaskó

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Kristín segir það sífellt vinsælla að versla á netinu hér heima
Kristín segir það sífellt vinsælla að versla á netinu hér heima Vísir/GVA

„Viðbrögðin hafa verið rosalega góð. Það hafa samt einhverjir mætt bara heim til mín og ekki áttað sig á að þetta er bara netverslun,“ segir Kristín Johansen sem nýlega opnaði netverslunina Flo.is. Hún er sérstök fyrir þær sakir að einungis eru seldir barnaskór á síðunni. „Mér fannst ekki mikið úrval af barnaskóm á landinu og ég hafði mikinn áhuga á því að bæta við góðum skóm úr leðri í flóruna. Þetta er bara spennandi tækifæri,“ segir Kristín.

Hún er með áralanga reynslu í skógeiranum en hún vann lengi í bæði smásölu og heildsölu með skó, hefur farið á fjölda skósýninga og þekkir því skóheiminn vel.

En af hverju skóverslun á netinu? „Ég ákvað að byrja með netverslun og byrja bara smátt. Það hefur verið mjög mikil aukning í netverslun hér heima og fólk er farið að þora að kaupa meira á netinu. Ég tek samt eftir því að yngri kynslóðin er mun duglegri við að prófa að kaupa,“ bætir hún við.

Þar sem ekki er hægt að máta skóna segir Kristín að það sé alltaf hægt að skipta og skila. „Svo er bara svo gott að geta keypt alla skóna á börnin á sama stað, “ segir hún.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.